Handbolti

Leikmenn og þjálfarar Dana fengu subbuleg skilaboð frá svekktum Íslendingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nokkrir reiðir stuðningsmenn Íslands fóru langt yfir strikið eftir tap Danmerkur fyrir Frakklandi.
Nokkrir reiðir stuðningsmenn Íslands fóru langt yfir strikið eftir tap Danmerkur fyrir Frakklandi. getty/Sanjin Strukic

Leikmönnum og þjálfurum danska handboltalandsliðsins bárust miður falleg skilaboð frá ósáttum Íslendingum eftir leik Danmerkur og Frakklands í gær.

Danmörk tapaði leiknum með eins marks mun, 29-30, og fyrir vikið komst Ísland ekki í undanúrslit Evrópumótsins.

Íslendingar voru margir hverjir ósáttir eftir leikinn og létu gamminn geysa á samfélagsmiðlum. Einhverjir gengu enn lengra og sendu leikmönnum og þjálfurum danska liðsins ógeðfelld skilaboð.

Frederik G. Schmidt, fjöl­miðlafull­trúi danska hand­knatt­leiks­sam­bandsins, greindi frá þessu á Twitter í dag. Hann segir ekkert til í því að danska liðið hafi tapað leiknum viljandi.

„Ég er ekki hrif­inn af sum­um skila­boðum sem leik­mönn­um og þjálf­arat­eym­inu hafa borist eft­ir leik­inn gegn Frakklandi í gær­kvöldi. Nei, þeir töpuðu ekki vilj­andi. Og nei, maður á ekki skilið að deyja bara vegna þess að maður tap­ar hand­bolta­leik,“ skrifaði Schmidt á Twitter.

Það voru ekki bara leikmönnum og þjálfurum danska liðsins sem bárust subbuleg skilaboð eftir leikinn heldur einnig danska handboltamiðlaranum Rasmus Boysen.

Danir mæta Spánverjum í undanúrslitum EM á morgun. Í hinum undanúrslitaleiknum eigast Frakkar og Svíar við. Íslendingar mæta hins vegar Norðmönnum í leiknum um 5. sætið.


Tengdar fréttir

Þjálfari Dana: „Mjög svekktur að hafa tapað“

„Við vildum allir saman vinna leikinn, á því leikur ekki nokkur vafi,“ sagði Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska landsliðsins, svekktur eftir 30-29 tapið gegn Frakklandi á EM í handbolta í gær.

Ísland grátlega nærri undanúrslitunum

Íslenska karlalandsliðið í handbolta komst ekki áfram í undanúrslit Evrópumótsins í handbolta. Þess í stað mun liðið leika um fimmta sæti mótsins á föstudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.