Fótbolti

Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni sagðir ráða hermenn sér til varnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Um er að ræða fyrrum hermenn þannig að þeir verða nú ekki í fullum skrúða á heimilum leikmannanna.
Um er að ræða fyrrum hermenn þannig að þeir verða nú ekki í fullum skrúða á heimilum leikmannanna. EPA-EFE/JULIEN WARNAND

Það er gömul frétt og ný að brotist sé inn á heimili leikmanna í ensku úrvalsdeildinni á meðan þeir eru að spila og það hefur verið nóg af slíkum fréttum að undanförnu.

Glæpamennirnir geta fylgst með leikmönnunum í beinni í sjónvarpinu og vita því nákvæmlega hvenær þeir eru ekki heima hjá sér.

Nú ætla sumar fótboltastjörnurnar að snúa vörn í sókn og sækja sér hjálp í að verja heimili sín.

Nýjasta fórnarlambið er sænski landsliðsmiðvörðurinn Victor Nilsson Lindelöf hjá Manchester United. Í síðustu viku var brotist inn á heimili hans á meðan hann var að spila með United. Kona hans og tvö ung börn voru heima.

Maja Nilsson Lindelöf sagði frá upplifun sinn á samfélagsmiðlum.

„Á meðan Victor var að spila á miðvikudagskvöldið þá var brotist inn hjá okkur í Manchester. Ég var ein heima með bæði börnin okkar en okkur tókst að fela okkur með því að læsa okkur inn í einu herberginu áður en þeir komust inn í húsið. Við erum í lagi miðað við allt sem gekk á en auðvitað var þetta áfall, bæði fyrir mig og börnin,“ skrifaði Maja Nilsson Lindelöf.

Öll þessi innbrot eru orðin stórt vandamál með þekktra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni. Enskir miðlar segja frá því að sumir leikmanna hafa ákveðið að taka til sinna ráða með því að sækja sér hjálp fyrrum sérsveitarmeðlima úr breska hernum.

Fyrrum hermenn úr SAS sveit breska hersins hafa nefnilega ráðið sig í vinnu og hafa þeir það starf að verja heimili leikmannanna þegar þeir eru í burtu.

„Margir leikmenn hafa fengið sér varðhunda en í sumum tilfellum vilja þeir hafa menn í húsinu og þess vegna hafa þeir leitað til fyrirtækja sem hafa menn í vinnu sem voru áður í sérsveitum hersins,“ hefur Daily Mail eftir manni sem þekkir vel til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×