Enski boltinn

Þarf að semja frið við lukkudýrið

Sindri Sverrisson skrifar
Geitungurinn Harry er lukkudýr Watford.
Geitungurinn Harry er lukkudýr Watford. Getty/Steven Paston

Roy Hodgson er mættur á Vicarage Road í Watford sem nýr knattspyrnustjóri samnefnds félags. Þar bíður hans lukkudýr sem hann sagði á sínum tíma að hagaði sér „svívirðilega“.

Hinn 74 ára gamli Hodgson hefur komið víða við á löngum ferli og mun ný freista þess að stýra Watford frá falli úr ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Hodgson var síðast stjóri Crystal Palace og stýrði því á árunum 2017-2021. Það var á þeim tíma sem hann skammaðist út í lukkudýr Watford, geitunginn Harry (e. Harry the Hornet).

Lukkudýrið hafði í leik í desember 2016 gert grín að Wilfried Zaha, leikmanni Crystal Palace, eftir að Zaha fékk gult spjald fyrir leikaraskap. Harry the Hornet þóttist þá dýfa sér í jörðina.

Zaha virtist ekki kippa sér mikið upp við það. Hann sendi svo manninum sem lék lukkudýrið, Gareth Evans, skilaboð á Twitter eftir leik með mynd af þumalputta og dómurum að gefa einkunn fyrir dýfingar.

Hodgson var hins vegar spurður út í málið eftir að hann hafði tekið við Palace,í byrjun tímabilsins 2018-19, og var alls ekki hrifinn af lukkudýrinu:

„Ef að þið eruð að spyrja mig hvort að mér finnist að Harry the Hornet, sem ég geri ráð fyrir að sé lukkudýrið, eigi að dýfa sér svona, þá finnst mér það svívirðilegt,“ sagði Hodgson.

„Þetta er ekki það sem að fótboltaleikir eiga að snúast um. Ef að þetta snýst um að fá áhorfendur til að leita eftir einhverju sem er ekki til staðar þá verður að stöðva það.

Wilfried Zaha dýfir sér ekki til að fá víti. Hann er stundum felldur eða tekinn úr jafnvægi, án þess að það sé endilega brot eða víti, því hann hleypur á þvílíkum hraða og fer svo hratt með boltann,“ sagði Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×