Fótbolti

Mané fékk heilahristing áður en hann skoraði fyrir Senegal

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sadio Mané var tekinn af velli eftir að hann skoraði fyrir Senegal í dag, en leikmaðurinn fékk þungt höfuðhögg nokkrum mínútum áður en hann skoraði.
Sadio Mané var tekinn af velli eftir að hann skoraði fyrir Senegal í dag, en leikmaðurinn fékk þungt höfuðhögg nokkrum mínútum áður en hann skoraði. AP Photo/Sunday Alamba

Senegalski knattspyrnumaðurinn Sadio Mané, leikmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, fékk heilahristing áður en hann skoraði fyrra mark Senegal í 16-liða úrslitum Afríkumótsins í fótbolta í dag.

Mané lenti í slæmu samstuði við markvörð Grænhöfðaeyja eftir tæplega klukkutíma leik sem varð til þess að markvörðurinn var rekinn af velli með beint rautt spjald.

Þrátt fyrir að hafa legið óvígur eftir samstuðið hélt Mané leik áfram og nokkrum mínútum síðar skoraði hann glæsilegt mark eftir hornspyrnu.

Eftir að hafa fagnað markinu lagðist Mané í grasið á miðjum vellinum og var svo leiddur af velli áður en leikurinn gat haldið áfram.

Á seinustu árum hefur mikil umræða átt sér stað varðandi höfuðhögg og höfuðmeiðsli leikmanna og því voru margir hissa þegar Mané var metinn hæfur til að halda leik áfram eftir höfuðhöggið.

Mané mun nú gangast undir læknisskoðun, en það er nokkuð ljóst að Senegal gæti þurft að undirbúa sig fyrir það að spila án framherjans í átta liða úrslitum þar sem liðið mætir annað hvort Malí eða Miðbaugs-Gíneu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.