Fótbolti

Balotelli blómstrar með Birki og fékk landsliðssæti

Sindri Sverrisson skrifar
Mario Balotelli fagnar einu af mörkum sínum í tyrknesku úrvalsdeildinni í vetur. Á myndinni er einnig Birkir Bjarnason en þeir Balotelli komu báðir til Adana Demirspor á síðasta ári.
Mario Balotelli fagnar einu af mörkum sínum í tyrknesku úrvalsdeildinni í vetur. Á myndinni er einnig Birkir Bjarnason en þeir Balotelli komu báðir til Adana Demirspor á síðasta ári. Getty/Omer Evren Atalay

Mario Balotelli hefur verið valinn í ítalska landsliðshópinn í fótbolta í fyrsta sinn frá árinu 2018, nú þegar Evrópumeistararnir búa sig undir leiki sem ráða því hvort þeir komist á HM í Katar.

Balotelli, sem er 31 árs, hefur ekki náð þeim hæðum sem búist var við á árum áður.

Eftir að hafa skorað mörk fyrir Inter, Manchester City og AC Milan, en átt afar erfitt uppdráttar hjá Liverpool, hefur hann leikið fyrir smærri félög í Frakklandi og Ítalíu en er nú leikmaður Adana Demirspor í Tyrklandi. Þar leikur Balotelli með Birki Bjarnasyni og hefur skorað 8 mörk í 18 deildarleikjum.

Birkir og Balotelli léku einnig saman hjá Brescia á Ítalíu, fyrri hluta ársins 2020.

Balotelli lék síðast fyrir ítalska landsliðið í september 2018 en er nú í 35 manna leikmannahópi sem kemur saman í þriggja daga æfingabúðir á morgun.

Æfingarnar eru síðasta tækifæri Roberto Mancini til að undirbúa sína menn áður en Ítalía mætir Norður-Makedóníu 24. mars í undanúrslitum umspils um sæti á HM. Ítalía þarf að vinna þann leik, og svo sigurliðið úr leik Portúgals og Tyrklands 29. mars, til að komast á HM.

Balotelli hefur áður leikið undir stjórn Mancinis, hjá Inter og Manchester City.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.