Íslenski boltinn

Alexander Helgi ekki með Breiða­bliki í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexander Helgi mun ekki spila á Íslandi næsta sumar.
Alexander Helgi mun ekki spila á Íslandi næsta sumar. Vísir/Bára Dröfn

Miðjumaðurinn Alexander Helgi Sigurðarson mun ekki spila með Breiðabliki í sumar. Hann hefur samið við sænska þriðju deildarfélagið Vasalunds um að leika með liðinu meðan hann stundar nám í Svíþjóð.

Alexander Helgi var lykilmaður í silfurliði Breiðabliks á síðustu leiktíð en eftir tímabilið sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson – þjálfari Breiðabliks – það væri óvíst hvort Alexander Helgi yrði áfram hjá félaginu þar sem hann var að fara í nám erlendis.

Nú hefur hlaðvarpið Dr. Football staðfest að leikmaðurinn sé á leið til Vasalund sem leikur í þriðju efstu deild þar í landi. Liðið féll úr B-deildinni á síðustu leiktíð.

Alexander Helgi er 25 ára gamall og hefur spilað með Víking Ólafsvík sem og uppeldisfélagi sínu Breiðablik á ferlinum. Hann á að baki 95 leiki í deild, bikar og Evrópu.

Breiðablik er þó ekki á flæðiskeri statt þegar kemur að miðjumönnum en frá því að tímabilinu lauk hafa þeir Ísak Snær Þorvaldsson og Dagur Dan Þórhallsson gengið til liðs við Kópavogsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×