Innlent

Hálf­dapur­leg við­töl úr fyrri hálf­leik í Laugar­dals­höll

Snorri Másson skrifar
Opið er í bólusetningu frá tíu til þrjú í Laugardalshöll á daginn og síðasti hálftíminn var því helgaður leik Íslendinga gegn Króötum í Búdapest í dag. Það ríkti bjartsýni enda leit þetta ansi vel út framan af. En skjótt skipast veður í lofti.
Opið er í bólusetningu frá tíu til þrjú í Laugardalshöll á daginn og síðasti hálftíminn var því helgaður leik Íslendinga gegn Króötum í Búdapest í dag. Það ríkti bjartsýni enda leit þetta ansi vel út framan af. En skjótt skipast veður í lofti. Vísir/Vilhelm

Bjartsýnin réð ríkjum þegar nokkur fjöldi fólks var bólusettur yfir leik landsliðsins gegn Króötum í dag. Enda lokaði í bólusetningunni í hálfleik.

„Það er ekki nóg að vera bara best í handbolta, við þurfum líka að vera best í bólusetningum,“ sagði fréttamaður kokhraustur þegar staðan var 11-8. Hún breyttist eðli máls samkvæmt og svo mjög til hins verra er töluvert var liðið á leikinn.

Um 100.000 eru fullbólusettir á Íslandi en ekki komnir með örvunarbólusetningu. Um það bil 800 mættu í dag og bættu úr því, auðvitað á heimavelli íslenska landsliðsins í Laugardalshöll. Þeir fylgdust með leiknum á meðan:

„Það var ein hérna sem vildi endilega fá að horfa á leikinn og við vorum mjög til í að hafa þetta með. Gott að dreifa huganum frá sprautunum,“ sagði Jón Heiðar Sigurðsson starfsmaður á svæðinu.

Gunnlaugur Bragi Björnsson var ekki alveg á því að það væri róandi að horfa á leikinn í bólusetningu, en það eru bjartar hliðar. „Það var ekki DJ þegar við Janssen fólkið komum á sínum tíma. Þannig að þetta er kannski smá uppreist æru fyrir okkur,“ sagði Gunnlaugur.

Særun Samúelsdóttir sagði róa taugarnar að fylgjast með leiknum, alltént á meðan staðan væri 10-5. Það átti eftir að breytast.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×