Enski boltinn

Guardiola segir Southampton vera með besta aukaspyrnumann í heimi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
James Ward-Prowse er sá besti í heimi í að taka aukaspyrnur að mati Pep Guardiola.
James Ward-Prowse er sá besti í heimi í að taka aukaspyrnur að mati Pep Guardiola. Clive Brunskill/Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að Southampton sé með besta aukaspyrnumann í heimi í herbúðum sínum, en liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni í dag.

James Ward-Prowse, miðjumaður Southampton, hefur vakið verðskuldaða athygli á seinustu árum fyrir hættulegar aukaspyrnur. Hvort sem það eru fyrirgjafir utan af kanti, eða skot á mark, þá virðast aukaspyrnur Ward-Prowse alltaf vekja upp ótta andstæðinga hans.

Guardiola var á sínum tíma þjálfari Barcelona og á tíma hans þar var leikmaður sem einnig hefur verið talinn nokkuð góður í að taka aukaspyrnur. Sá heitir Lionel Messi, en Guardiola segir að Ward-Prowse sé sá besti sem hann hefur séð.

„Það er enginn betri að taka aukaspyrnur en hann,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í gær.

„Southampton er með besta aukaspyrnumann sem ég hef nokkurn tíman séð. Hann er að minnsta kostui sá besti í heimi á þessari stundu.“

Þrátt fyrir þetta lof frá spænska þjálfaranum á Ward-Prowse ansi langt í land til að ná Lionel Messi í mörkum skoruðum úr aukaspyrnum. Ef skoðuð eru seinustu fimm ár hefur Ward-Prowse skorað úr 11 aukasprynum, en Messi nánast tvöfalt fleiri, eða 20.

Guardiola stóð þó fastur á sínu og hélt áfram að hrósa Englendingnum.

„Hann er svo góður að maður horfir kannski aðeins framhjá getu hans í fótbolta. Hann er mikill liðsmaður sem býður upp á mikil gæði, bæði með og án bolta.“

„Hann hefur mikinn skilning á leiknum, en það eru aukaspyrnurnar, föstu leikatriðin og hornspyrnurnar sem fólkið horfir á,“ sagði Guardiola að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.