Reynir staðfesti innbrotið við fréttastofu um hádegisbil. Hann greindi frá því í gær að brotist hefði verið inn í bíl hans við Úlfarsfell þar sem hann fór í gönguferð. Innbrotsþjófurinn hafi að líkindum komist inn með lyklum Reynis sem teknir voru í bíl hans við Úlfarsfell í gær.
Lögreglan mætti á vettvang í morgun, tók fingraför og skýrslu. Reynir segir ákveðnar vísbendingar um það hver geti átt í hlut.
„Þetta eru menn sem kunna til verka. Það liggur alveg fyrir. Þeir fara inn á vefinn, eyða og hafa fyrir því að tæma úr ruslinu og eyða greinunum. Það er engin tilviljun fólgin í þessu.“
Þið hafið verið að birta undanfarna daga greinar um valdamikla menn. Hafið þið einhverja grunaða?
„Það er svo annar kapítúli. Við höfum verið að birta greinar um Róbert Wessman, sem hefur verið mjög ósáttur og viljað fá öll gögn sem ég bý yfir. Við sögðum frá því að lögfræðistofa í London sem kostar ekkert smáræði, sama stofa og vann fyrir Harvey Weinstein, er að vinna fyrir þá í því að krefja okkur um öll gögn sem snúa að Róbert Wessman. Nú get ég ekki látið blessaðan karlinn hafa þessi gögn. Þetta er allt horfið,“ segir Reynir.

„Við munum ná í gaurinn á hinum endanum“
Gögn og allur vefur Mannlífs hefur legið niðri í alla nótt eftir að öllu var eytt út. Vonast er til að verulegur hluti greinanna verði endurheimtur, en aðgerðin virtist skipulögð.

„Ég er búinn að vera í þessu í 25 ár og ég hef aldrei kynnst annarri eins forherðingu. Ég er eltur,“ segir Reynir. „Þetta er einhvers konar viðbjóður sem er í gangi. Ég hef áður fengist við svona mál en þetta er með því allra harðsvírasta sem ég man. Þetta eru ekki menn ruglaðir af dópi eða að gera eitthvað óskipulagt, þetta eru útsendarar.
Það eina sem ég get sagt er að manni líður eins og manni hafi verið misþyrmt eða stunginn í bakið. En ég heiti því að við munum ná í gaurinn á hinum endanum.“