Innlent

Útlendingar upplifi Covid-flutninga sem niðurlægingu

Jakob Bjarnar skrifar
Erlendum gestum þykir það heldur niðurlægjandi þegar bíllinn sem flytur þá á sóttvarnarhótel, kyrfilega merktur Covid-farþegaflutningar, eru stopp á ljósum og aðrir vegfarendur mæla þá út.
Erlendum gestum þykir það heldur niðurlægjandi þegar bíllinn sem flytur þá á sóttvarnarhótel, kyrfilega merktur Covid-farþegaflutningar, eru stopp á ljósum og aðrir vegfarendur mæla þá út. vísir/vilhelm

Sigtryggur Arnar Magnússon leigubílstjóri hjá City Taxi segist hafa komist að því, í samtölum við farþega sína, að þeir telja sig smánaða með því að vera fluttir í einangrun með kyrfilega merktum covid-bílum.

„Já, þetta er „skemmtilegt“ sjónarhorn sem ég hef fengið frá útlendingum sem ég hef verið að keyra eftir einangrun. Þau eru öll sammála um eitt, og skilja ekki í því hvernig það megi vera þegar þau hafa fengið Covid hér á Íslandi og þau keyrð á sóttvarnarhótel: Þá kemur bíll að sækja þau og á bílnum stendur stórum stöfum: Covid farþegaflutningar!“

Ljósmyndari Vísis rakst á einn slíkan bíl, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hér ofar, en þetta eru bílar á vegum Gray Line, og ekki fer hjá þeim sem sér að þar er verið að ferja covid-sýkta einstaklinga.

Sigtryggur hjá City Taxi. Hann kemst að einu og öðru forvitnilegu þegar hann rabbar við farþega sína.vísir/vilhelm

„Af hverju þarf þetta að vera svona,“ spyr Sigtryggur sem ekki áttar sig á tilgangi með svo áberandi merkingu á bíl sem fer þessara erinda. Hann segir að farþegarnir lýsi því sem sérlega niðurlægjandi reynslu, þegar bílarnir eru til að mynda stopp á ljósum, þegar forvitin augu annarra vegfarenda mæli farþegana út.

„Annars eru þau öll ánægð með að þetta sé allt frítt en upplifa mikla niðurlægingu í þessu.“

Önnur saga sem Sigtryggur hefur eftir þessum tilteknu farþegum sínum er að maturinn sem Covid-hótelin bjóði uppá hljóti að koma frá spítalanum. „Hann er alltaf kaldur þegar hann kemur. Kínverjarnir borðuðu aldrei matinn, gátu það ekki. Þetta er erfið aðstaða því ekki er vel séð að verið sé að panta mat utan frá.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×