Erlent

Höfuð­paur mansals­hrings dæmdur vegna dauða 39 manna

Atli Ísleifsson skrifar
Vörubíllinn með líkunum 39 fannst í Waterglade Industrial Park í Grays, austur af London í október 2019.
Vörubíllinn með líkunum 39 fannst í Waterglade Industrial Park í Grays, austur af London í október 2019. EPA

Dómstóll í Belgíu hefur dæmt víetnamskan mann, sem talinn er vera höfuðpaur mansalshrings, í fimmtán ára fangelsi vegna dauða 39 Víetnama sem létust af völdum súrefnisskorts í vöruflutningabíl sem fannst yfirgefinn í Essex í Bretlandi í október 2019.

Réttað er yfir manninum, Vo Van Hong, auk 22 til víðbótar í belgísku borginni Brugge, en þau eru öll grunuð um aðild að skipulagningu mansals. Þau 39 sem fundust í vörubílnum í Bretlandi höfðu stigið um borð í úthverfi Brussels og svo látist af völdum súrefnisskorts eða ofkælingu á leiðinni með ferjunni milli Zeebrugge og Bretlands.

Lík fólksins – 31 karlmaður og átta konur á aldrinum fimmtán til 44 ára – fundust af lögreglu þegar tengivagn bílsins var opnaður þar sem hann stóð í Waterglade Industrial Park í Grays, austur af London.

Fólkið hafði gert tilraun til að bora sig í gegnum málmþak tengivagnsins með staur, en án árangurs. Vörubíllinn hafði upphaflega komið frá Búlgaríu.

Saksóknarar í málinu höfðu Hong hafa haft milligöngu um að smygla samtals 115 manns yfir Ermarsundið á tímabilinu frá september 2018 og þar til að hann var handtekinn í maí 2020. Hann neitaði sök í málinu.

Allir sakborningar eru Víetnamar eða Belgar af víetnömskum uppruna. Í frétt BBC segir að fjórir hafi verið sýknaðir í málinu en nítján sakfelldir.

Dómstóll í Bretlandi hafði áður dæmt fjóra seka um manndráp vegna sama máls.


Tengdar fréttir

Fjórir dæmdir eftir að 39 fundust látin í vöru­bíl

Dómstóll í Víetnam hefur dæmt fjóra einstaklinga til fangelsisvistar fyrir að hafa skipulagt ferð sem lauk með að 39 fundust látin í vörubíl á iðnaðarsvæði fyrir utan London á síðasta ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×