Fótbolti

Sá besti notar ryksugu til að laga hár dóttur sinnar

Sindri Sverrisson skrifar
Robert Lewandowski með hinni fjögurra ára gömlu Klöru, dóttur sinni.
Robert Lewandowski með hinni fjögurra ára gömlu Klöru, dóttur sinni. @_rl9/Getty

Robert Lewandowski var í gær útnefndur besti knattspyrnumaður heims á síðasta ári á verðlaunahófi FIFA. Hann er einnig úrræðagóður faðir.

ESPN birti á Twitter-síðu sinni myndband af því þegar pólska markavélin Lewandowski lagaði hár elskulegrar dóttur sinnar til. Notaði hann ryksugu til þess, eins og sjá má á myndskeiðinu hér að neðan, og virðist Klara þaulvön þessari óvenjulegu aðferð pabba síns við að setja teygju í hárið.

Eins og fyrr segir var Lewandowski í gær útnefndur besti knattspyrnumaður ársins 2021, annað árið í röð, eftir að hafa haldið áfram að raða inn mörkum fyrir Bayern München í öllum keppnum. Hann hafði betur gegn Lionel Messi og Mohamed Salah sem urðu í 2. og 3. sæti í gær.

Fyrirliðar og þjálfarar landsliða heimsins, sem og einn blaðamaður frá hverju landi, tóku þátt í kjöri FIFA á leikmanni ársins. Birkir Bjarnason kaus Lewandowski efstan, sem og blaðamaðurinn Víðir Sigurðsson, en landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var með N'Golo Kanté, Jorginho og Lionel Messi á sínum lista.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.