Fótbolti

Hákon ekki seldur heldur með nýjan samning

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson kom til Elfsborg frá Gróttu í fyrra.
Hákon Rafn Valdimarsson kom til Elfsborg frá Gróttu í fyrra. Elfsborg

Þrátt fyrir áhuga danska stórliðsins Midtjylland þá lítur út fyrir að markvörðurinn ungi Hákon Rafn Valdimarsson verði áfram hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Elfsborg.

Hákon kom til Elfsborg frá Gróttu í fyrrasumar, 19 ára gamall, komst inn í byrjunarlið Elfsborg og náði að spila fimm leiki í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Það vakti athygli Midtjylland sem Ekstra Bladet segir að hafi lagt fram kauptilboð í Hákon. Elías Rafn Ólafsson, sem er 21 árs eða ári eldri en Hákon, er orðinn aðalmarkvörður Midtjylland en félagið vantar mann til að veita honum samkeppni eftir brotthvarf Jonas Lössl til Brentford.

Nú er Hákon hins vegar búinn að skrifa undir nýjan samning við Elfsborg sem gildir til ársins 2026. Félagið greindi frá þessu í dag.

„Ég er mjög ánægður með þetta. Ég kann mjög vel við mig í Elfsborg svo ég er ánægður með að hafa skrifað undir framlengingu. Þetta hefur byrjað mjög vel, ég hef fengið að spila og þróast mikið nú þegar hjá félaginu,“ sagði Hákon á heimasíðu Elfsborg.

Hákon lék tvo fyrstu A-landsleiki sína fyrr í þessum mánuði, gegn Úganda og Suður-Kóreu, í vináttulandsleikjum í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×