Þeir Ragnar Freyr Ingvarsson, læknir hjá Landspítala og fyrrverandi yfirlæknir Covid-göngudeildarinnar, og Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir á spítalanum, hafa undanfarið tjáð sig mikið um faraldurinn og stöðu spítalans. Þeir hafa þó gjörólíka sýn á málin.
Ragnar Freyr hefur nýlega komist í fréttir fyrir að koma fram með þá hugmynd að hætta því sýnatökufyrirkomulagi sem nú er viðhaft þegar svo margir greinast smitaðir daglega. Í gær greindust til dæmis næstflestir með Covid-19 frá upphafi faraldursins.
Óttar Kolbeinsson Proppé, fréttamaður Stöðvar 2, stýrir umræðunum á eftir, sem hefjast klukkan 14:30. Hægt verður að horfa á þær í beinni hér í spilaranum að neðan.
Sóttvarnalæknir og Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, hafa verið honum ósammála í því og einnig góður vinur og samstarfsmaður Ragnas Freys, Tómas Guðbjartsson.
Hann er hinum megin línunnar, vill halda hörðum samkomutakmörkunum á meðan ástandið á spítalanum er eins og það er í dag og komst í fréttir um helgina fyrir að skjóta föstum skotum að utanríkisráðherra fyrir orðræðu hennar í faraldrinum.
Það hefur dregið til mikilla tíðinda í faraldrinum síðustu daga; margt bendir til að ómíkron-afbrigðið valdi margfalt vægari veikindum en delta-afbrigðið og þá hefur sóttvarnalæknir rokkað fram og til baka þegar hann ræðir um sóttvarnatakmarkanir. Óbreyttar tuttugu manna samkomutakmarkanir tóku gildi í byrjun síðustu viku en þremur dögum síðar var ákveðið að herða niður í 10 manns og í gær viðraði sóttvarnalæknir svo þær hugmyndir að slaka aftur á takmörkunum.
Margir eru búnir að missa þráðinn í umræðunum. Hvert er markmiðið í dag? Og er réttlætanlegt að hafa svo gríðarlega strangar samkomutakmarkanir í gildi þegar nýtt afbrigði er minna skaðlegt en upprunalega var búist við? Þetta verður allt tekið fyrir í fjörugum umræðum í Pallborðinu í dag.