Innlent

Á­fram í varð­haldi eftir að hafa gengið í gildru lög­reglu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla lagði gildru fyrir parið.
Lögregla lagði gildru fyrir parið. Vísir/Vilhelm

Kona sem er annar helmingur pars sem gekk í gildu lögreglu eftir að hafa verið grunað um stórfellt fíkniefnabrot mun sitja áfram í gæsluvarðhaldi fram í næsta mánuð.

Þetta er niðurstaða Landsréttar sem staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis, eftir að konan kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.

Parið hefur verið ákært fyrir að hafa flutt inn fjögur kíló af kókaíni hingað til lands með flutningaskipinu Mistral, í eigu Smyril Line, í október á síðasta ári.

Fíkniefnin fundust vandlega falin í gólfi bifreiðar við tollskoðun hér á landi.

Lögregla greip til þess ráðs að skipta út kókaíninu fyrir gerviefni. Tveimur dögum eftir tollskoðun bílsins sótti parið bílinn á tollsvæði Smyril Line í Þorlákshöfn og óku bílnum að heimili sínu í Reykjavík, en parið er búsett hér á landi.

Lögreglan fylgdist grannt með parinu en maðurinn sótti gerviefnin sem falin voru í bílnum degi eftir komu þeirra til Reykjavíkur.

Maðurinn var umsvifalaust handtekinn af lögreglu og konan var handtekin á heimili sínu skömmu síðar.

Neita bæði sök

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að í skýrslutökum vegna málsins sagðist konan kannast við meintan innflutning á efnunum, maðurinn neitaði hins vegar að tjá sig um hin meintu brot.

Við þingfestingu málsins neituðu þau bæði sök.

Í greinargerð lögreglu segir að konan liggi undir sterkum grun um stórfelld fíkniefnalagabrot sem þyki mjög alvarleg og geti varðað allt að tólf ára fangelsi.

Landsréttur staðfesti sem fyrr segir úrskurð héraðsdóms og þarf konan að sæta gæsluvarðhaldi til 8. febrúar næstkomandi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×