Fótbolti

Dagný Brynjarsdóttir lagði upp mark í uppbótartíma fyrir West Ham

Atli Arason skrifar
Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður West Ham, í leik gegn Tottenham fyrr á tímabilinu.
Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður West Ham, í leik gegn Tottenham fyrr á tímabilinu. Getty/Tom Dulat

Dagný Brynjarsdóttir var í byrjunarliði West Ham og spilaði allan leikinn í 1-1 jafntefli við Tottenham í ensku ofurdeildinni í kvöld.

Leikurinn fór rólega af stað og var markalaus í hálfleik. Á 53. mínútu leiksins brýtur Hawa Cissoko, leikmaður West Ham, klaufalega af sér inn í vítateig og vítaspyrna er dæmd. Cissoko var heppinn að fá ekki seinna gula spjaldið sitt í leiknum fyrir brotið. 

Rosella Ayane, leikmaður Tottenham, tekur vítaspyrnuna og skorar auðveldlega. Nokkrum mínútum seinna brýtur Cissoko aftur af sér og sparkar boltanum í burtu í kjölfarið til að sýna dómaranum óánægju sína með dómgæsluna og fær hún því réttilega annað gult spjald að launum og þar með rautt. West Ham spilaði því síðasta hálftíma leiksins einum leikmanni færri. 

Það kom þó ekki að sök því með hetjulegri baráttu náði West Ham að jafna leikinn í uppbótatíma. Þá á Dagný fyrirgjöf sem Kate Longhurst stýrir í netið með kollspyrnu. Stuttu síðar flautaði dómarinn leikinn af, lokatölur 1-1.

Eftir leikinn er West Ham í 8. sæti deildarinnar á meðan að Tottenham er í því fjórða með 21 stig en mark Longhurst í kvöld gæti skemmt titilvonir Tottenham sem er nú 4 stigum á eftir Arsenal sem er á toppi deildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.