Fótbolti

Rafael Benitez rekinn

Atli Arason skrifar
Rafa Benitez er nú atvinnulaus
Rafa Benitez er nú atvinnulaus EPA-EFE/Peter Powell

Rafael Benitez hefur verið rekinn frá Everton en félagið staðfesti það fyrr í dag. Árangur liðsins undir stjórn Benitez hefur alls ekki verið nógu góður en félagið er aðeins 6 stigum frá fallsvæðinu með 19 stig í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Everton hefur aðeins unnið 5 deildarleiki á tímabilinu.

2-1 tapið gegn Norwich í gær var kornið sem fyllti mælin hjá stuðningsmönnum liðsins sem margir hverjir sungu að Benitez væri „einungis feitur spænskur þjónn“ og að „hann ætti að vera rekinn í fyrramálið.“

Stjórn Everton hefur svarað þessum skilaboðum strax með því að reka Benitez úr starfi en yfirlýsing félagsins er frekar stutt og snubbótt. Benitez er ekki þakkað fyrir sín störf fyrir liðið eins og vaninn er oft í svona yfirlýsingum.

„Everton getur staðfest brottför Rafael Benitez sem knattspyrnustjóra liðsins. Benitez gekk til liðs við Everton í júní 2021 en mun yfirgefa klúbbinn strax í dag. Eftirmaður Benitez verður tilkynntur innan skamms,“ er sagt í stuttri yfirlýsingu Everton eftir brottreksturinn.

Frank Lampard, Wayne Rooney, Duncan Ferguson, Nuno Espirto Santo og Graham Potter eru meðal nafna sem breska pressan hefur orðað við stjórnarstöðuna hjá Everton í kjölfar brottreksturs Benitez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×