Fótbolti

Leik Arsenal og Totten­ham frestað vegna ó­leik­færa leik­manna

Atli Arason skrifar
Mikel Arteta ásamt Lokonga, Martinelli og Gabriel eftir jafnteflið við Liverpool.
Mikel Arteta ásamt Lokonga, Martinelli og Gabriel eftir jafnteflið við Liverpool.

Leik Arsenal og Tottenham sem átti að fara fram á morgun, sunnudaginn 16. janúar, hefur verið frestað að beiðni Arsenal. Stjórn enska knattspyrnusambandsins staðfesti þetta fyrr í morgun. Nýr leiktími hefur ekki verið staðfestur.

Ástæðan fyrir frestuninni er sögð vera sú að Arsenal er ekki með nógu marga leikmenn leikfæra fyrir leikinn en samkvæmt reglugerð úrvalsdeildarinnar geta lið fengið leikjum sínum frestað ef lið eru með færri en 13 útileikmenn og einn markvörð leikfæran.

Í tilkynningu frá úrvalsdeildinni er sagt að blanda af Covid-19 smitum, meiðslum og fjarvera leikmanna vegna Afríkukeppnirnar valdi því að Arsenal hafi ekki úr nægilega mörgum leikmönnum að velja fyrir þennan nágrannaslag.

Arsenal lánaði Ainsley Maitland-Niles til Róma fyrr í mánuðinum. Mohamed Elneny, Nicolas Pepe, Pierre-Emerick Aubameyang og Thomas Partey eru allir í afríkukeppninni á meðan Granit Xhaka er í leikbanni eftir rautt spjald sem hann fékk í leik gegn Liverpool í deildarbikarnum á fimmtudaginn. 

Emile Smith Rowe, Takehiro Tomiyasu, Bukayo Saka, Cédric Soares og Calum Chambers eru allir að glíma við meiðsli og Martin Ødegaard er sá leikmaður sem greindist með veiruna. Albert Sambi Lokonga var því eini miðjumaðurinn í leikmannahóp Arsenal sem var leikfær fyrir leikinn.

Margir hafa gagnrýnt Arsenal á samfélagsmiðlum eftir að liðið sendi inn beiðni um að leiknum yrði frestað. Meðal þeirra er fjölmiðlamaðurinn og fyrrum knattspyrnuleikmaðurinn Gary Neville, sem veltir fyrir sér hvort lið geti frestað leikjum þegar þau hafa ekki úr sínu besta liði að velja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×