Fótbolti

Í stað þess að koma heim gæti Hólmar Örn farið í sólina á Kýpur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hólmar Örn tæklar hér Romelu Lukaku í leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeildinni.
Hólmar Örn tæklar hér Romelu Lukaku í leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeildinni. Vísir/Vilhelm

Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið talið nær öruggt að fyrrverandi landsliðsmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson myndi halda heim á leið og jafnvel leika í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu næsta sumar. Nú virðist sem hann gæti verið á leið til Kýpur.

Á knattspyrnuvefnum 433.is er greint frá því að Apollon Limassol, lið sem leikur í efstu deild á Kýpur hafi boðið í miðvörðinn sem er í dag leikmaður Rosenborg í Noregi. Ku það vera til skoðunar.

Hinn 31 árs gamli Hólmar Örn hefur komið víða við á atvinnumannaferli sínum. Hann hefur leikið í Englandi, Belgíu, Þýskalandi, Ísrael, Búlgaríu og svo Noregi.

Hann lagði landsliðsskóna nýverið á hilluna og talið var að hann myndi koma heim eftir að eiginkona hans, Jóna Vestfjörð Hannesdóttir, hóf störf hjá lögmannsstofunni LOGOS. Nú virðist hins vegar sem Hólmar Örn sé að íhuga að halda atvinnumennskunni áfram og það á töluvert sólríkari stað en Noregi.

Apollon Limassol er í 3. sæti úrvalsdeildarinnar á Kýpur þegar tímabilið er hálfnað. Liðið hefur vakið athygli fyrir góðan árangur í Evrópukeppnum á undanförnum árum og er aðeins tveimur stigum á eftir toppliði AEK Larnaca eins og staðan er í dag.

Hólmar Örn yrði ekki einu fyrrverandi landsliðsmiðvörður Íslands til að leika á Kýpur en Kári Árnason lék þar árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×