Fótbolti

Sjö mörk, þrjú rauð og framlenging er Fiorentina sló Napoli úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fiorentina sló Napoli úr leik í Coppa Italia í kvöld.
Fiorentina sló Napoli úr leik í Coppa Italia í kvöld. Francesco Pecoraro/Getty Images

Fiorentina vann 5-2 útisigur eftir framlengdan leik er liðið heimsótti Napoli í 16-liða úrslitum ítalska bikarsins Coppa Italia, í kvöld.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 41. mínútu, en það var Dusan Vlahovic sem kom gestunum í Fiorentina yfir.  Forystan lyfði þó ekki lengi því Dries Mertens jafnaði metin fyrir Napoli þremur mínútum síðar.

Lokamínútur fyrri hálfleiks höfðu þó ekki sungið sitt síðasta því á annarri mínútu uppbótartíma fékk Bartlomiej Dragowski að líta beint rautt spjald í liði Fiorentina.

Þrátt fyrir að vera manni færri vour það gestirnir sem skoruðu næsta mark. Þar var á ferðinni Cristiano Biraghi á 57. mínútu og staðan orðin 2-1, Fiorentina í vil.

Útlitið skánaði ekki fyrir heimamenn þegar um fimm mínútur voru til leiksloka því þá fékk Hirving Lozano að líta beint rautt spjald og aftur var orðið jafnt í liðum. 

Enn versnaði það fyrir leikmenn Napoli því Fabian fékk að líta sitt annað gula spjald á þriðju mínútu uppbótartíma og þar með rautt. Það leit því allt út fyrir að Fiorentina myndi fagna 2-1 sigri, en Andrea Petagna jafnaði metin fyrir Napoli á fimmtu mínútu uppbótartíma og tryggði liðinu framlengingu.

Gestirnir í Fiorentina nýttu sér heldur betur liðsmuninn í framlengingunni og keyrðu yfir heimamenn. Lorenzo Venuti kom liðinu í 3-2 rétt fyrir hálfleik áður en Krzysztof Piatek skoraði fjórða mark liðsins á 108. mínútu.

Youssef Maleh gulltryggði svo 5-2 sigur Fiorentina undir lok framlengingarinnar og liðið er þar með komið í átta liða úrslit Coppa Italia þar sem Atalanta tekur á móti þeim.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.