Innlent

Fella niður kennslu fyrir austan

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Reyðarfirði.
Frá Reyðarfirði. Vísir/Vilhelm

Aðgerðastjórn Austurlands ákvað á fundi í dag að fella niður kennslu í Nesskóla í Neskaupstað, Eskifjarðarskóla og Grunnskóla Reyðarfjarðar á morgun, föstudaginn 14. janúar. Það er gert vegna fjölgunar smitaðra á landshlutanum undanfarna daga.

Síðustu tvo sólarhringa greindust um þrjátíu smitaðir á Austurlandi en mörg þeirra sem hafa smitast tengjast skólastarfi í bæjunum þremur, samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi.

„Staðan í faraldrinum er því orðin verulega þung og farin að reyna á víða í samfélaginu hér á Austurlandi. Þá hafa smit áhrif á starfsemi og mönnun í heilbrigðiskerfinu þar sem má lítið út af bregða til þess að þjónusta skerðist verulega,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Þar segir einnig að þörf á aðgerðum sé ljós.

Með því að fella niður kennslu er vonast til þess að draga megi úr útbreiðslu kórónuveirunnar og létta álag á heilbrigðiskerfinu. Staðan varðandi skólana verði svo tekin um helgina.

Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að fylgjast með tilkynningum um áframhaldið eftir helgi. Þá hvetur aðgerðastjórnin íþróttafélög til að fella niður íþróttaæfingar fram yfir helgina.

Í öðrum skólum Fjarðabyggðar og Austurlands er ástandið talið betra og því ekki ástæða til að fella niður kennslu. Í tilkynningunni segir að áfram verði fylgst náið með stöðunni á hverjum stað fyrir sig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×