Innlent

Leggur mögulega til hertar aðgerðir fyrir helgi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á jafn vel von á því að skila tillögum að hertum aðgerðum inn í vikunni.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á jafn vel von á því að skila tillögum að hertum aðgerðum inn í vikunni. Vísir/ Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir allt stefna í það að hann þurfi að leggja til að að sóttvarnarreglur verði hertar innanlands til að draga úr daglegum fjölda þeirra sem greinist með Covid-19. Hann segist jafn vel reikna með að skila tillögum um hertar aðgerðir fyrir helgi.

Þetta var á meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Þar var Þórólfur spurður um það af hverju hann hafi ekki lagt til við heilbrigðisráðherra að aðgerðir yrðu hertar. Ríkisstjórnin samþykkti í gær að framlengja innanlandsaðgerðir óbreyttar til næstu þriggja vikna.

Var þetta gert á grundvelli minnisblaðs Þórólfs sem hann skilaði inn 5. janúar síðastliðinn. Þórólfur og Alma Möller landlæknir skiluðu einnig minnisblaði í fyrradag þar sem athygli var vakin á þungri stöðu á Landspítalanum vegna faraldursins.

Sameiginlega minnisblaðinu ætlað að benda stjórnvöldum á alvarlega stöðu

Í máli Þórólfs á fundinum kom fram að hann teldi brýnt að koma daglegum fjölda þeirra sem greinast með Covid-19 niður í um 500, það væri tala sem Landspítalinn gæti ráðið við. Um og yfir þúsund greinast á degi hverjum þessa dagana.

Var Þórólfur spurður að því af hverju hann hafi ekki lagt harðari aðgerðir til í minnisblaðinu sem hann skilaði inn í fyrradag með Ölmu landlækni.

„Þetta sameiginlega minnisblað var bara til að brýna í raun og veru stjórnvöld og benda þeim á alvarlega stöðu,“ sagði Þórólfur.

Aðspurður um hvort ekki þyrfti að herða aðgerðir til að koma tölunum niður í 500 sagði Þórólfur að honum sýndist allt stefna í að setja þyrfti harðari takmarkanir á.

„Það er greinilegt og ég held að það sé nokkuð ljóst að ég þurfi ef á eigi að herða aðgerðir þá þarf ég að koma með tillögur um og ég verð fljótur að koma þeim á borðið ef á þarf að halda og mér sýnist stefna allt í það,“ sagði Þórólfur.

Síðar á fundinum var Þórólfur spurður að því hvort að von væri á nýju minnisblaði með tillögum að hertum aðgerðum fyrir helgi var svarið stutt og einfalt.

„Það er jafn vel von á því.“


Tengdar fréttir

Barn á fyrsta ári með Covid-19 á Landspítala

Eitt barn á fyrsta ári liggur nú inni á Landspítala með Covid-19 og um 60 eru í eftirliti á Barnaspítala vegna sjúkdómsins. Daglega koma um tvö til fimm börn þangað til skoðunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×