Erlent

Enginn af 52 þúsund ómíkron-greindum fór á öndunarvél

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísindamennirnir segja að þrátt fyrir vægari einkenni séu sjúkrahúsin að bogna undan álaginu, þar sem smithæfni ómíkron valdi því að veiran fari nú um eins og eldur í sinu.
Vísindamennirnir segja að þrátt fyrir vægari einkenni séu sjúkrahúsin að bogna undan álaginu, þar sem smithæfni ómíkron valdi því að veiran fari nú um eins og eldur í sinu. epa/Etienne Laurent

Ný rannsókn sem náði til 70 þúsund einstaklinga sem greindust með Covid-19 í Kaliforníu bendir til þess að ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar valdi vægari sjúkdóm og styttri innlögnum en önnur afbrigði veirunnar.

Niðurstöðurnar eru í takt við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Suður-Afríku, Bretlandi og Danmörku.

Rannsakendur við University of California fylgdu eftir 69.279 einstaklingum sem sýndu einkenni og greindust með Covid-19 á tímabilinu 30. nóvember til 1. janúar. Um 52 þúsund þeirra reyndust vera smitaðir af ómíkron en aðrir af delta.

Hlutfallslega lögðust heilmingi færri einstaklingar með ómíkron inn á sjúkrahús en þeir sem voru með delta. Þá lágu þeir að jafnaði þremur dögum styttra inni, sem jafngildir 70 prósentum af þeim tíma sem sjúklingar með delta voru inniliggjandi.

Þá vekur athygli að enginn af einstaklingunum 52 þúsund var settur á öndunarvél og aðeins einn dó en fjórtán af þeim 18 þúsund sem greindust með delta létust af völdum sjúkdómsins.

Vísindamennirnir komust einnig að því að þeir sem voru bólusettir voru á bilinu 64 til 73 prósent minna líklegir til að leggjast inn á sjúkrahús en óbólusettir. Óbólusettir voru hins vegar einnig líklegri til að koma betur frá því að veikjast af ómíkron en delta.

New York Times greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×