Fótbolti

Finnur Tómas laus allra mála hjá Norrköping

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Finnur Tómas Pálmason í leik með U-21 árs landsliði Íslands.
Finnur Tómas Pálmason í leik með U-21 árs landsliði Íslands. Facebook/@belarusff

Miðvörðurinn Finnur Tómas Pálmason er laus allra mála hjá sænska knattspyrnufélaginu IFK Norrköping. Frá þessu greindi félagið nú rétt í þessu.

Norrköping birti færslu þess efnis á vefsíðu sinni að ákveðið hefði verið að leyfa Finn Tómas að róa í aðra átt og leita að nýrri áskorun annarsstaðar. 

Finnur Tómas er tvítugur miðvörður sem er uppalinn hjá KR. Spilaði hann stóran þátt í Íslandsmeistaratitli félagsins sumarið 2019. Hann fór til Norrköping í janúar á síðasta ári en var lánaður til KR síðasta sumar. 

Aðeins ári eftir að festa kap á miðverðinum unga - sem er nú staddur með íslenska A-landsliðinu í Belek í Tyrklandi - hefur IFK Norrköping ákveðið að félagið þurfi ekki á kröftum hans að halda. 

Finnur Tómas á að baki 9 leiki með U-21 árs landsliði Íslands og gæti leikið sinn fyrsta A-landsleik bráðlega þar sem Ísland mætir Úganda og Suður-Kóreu í Tyrklandi á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×