Fótbolti

Stað­festir að Albert fari í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert Guðmundsson í baráttunni. Guðlaugur Victor Pálsson fylgist spenntur með.
Albert Guðmundsson í baráttunni. Guðlaugur Victor Pálsson fylgist spenntur með. Vísir/Hulda Margrét

Yfirmaður knattspyrnumála hjá AZ Alkmaar hefur staðfest að landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson muni yfirgefa félagið á frjálsri sölu í sumar.

Max Huiberts, yfirmaður knattspyrnumála hjá AZ, var til tals hjá hollenska fjölmiðlinum Noordhollands Dagblad og fór þar yfir stöðu íslenska landsliðsmannsins. Í viðtalinu staðfesti hann að Albert ætli sér að yfirgefa félagið í sumar er samningur hans rennur út.

Albert er einkar eftirsóttur og hefur verið orðaður við lið á borði við Celtic í Skotlandi, Lazio á Ítalíu og Feyenoord heima fyrir.

Samkvæmt frænda hans og nafna, Alberti Brynjari Ingasyni, er Albert yngri þó hvað heitastur fyrir flutningum til Spánar. Albert Brynjar ræddi stöðu frænda síns í þætti hlaðvarpsins Dr. Football á dögunum.

AZ Alkmaar gæti reynt að selja Albert nú meðan janúarglugginn er opinn en óvíst er hvernig Albert tæki í það. Það er allavega ljóst að samningsstaða hans er enn betri í sumar er hann er laus allra mála í Hollandi.

Albert er 24 ára gamall og hefur leikið með PSV og AZ á atvinnumannaferli sínum. Þá á hann að baki 29 A-landsleiki sem og fjölda yngri landsleikja.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.