Erlent

Eld­varnar­hurðir lokuðust ekki þegar elds­voði varð sau­tján að bana

Árni Sæberg skrifar
Viðbragðsaðilar að störfum í gær.
Viðbragðsaðilar að störfum í gær. AP Photo/Yuki Iwamura

Sautján létust, þar af átta börn, þegar eldur kviknaði í íbúðablokk í New York. Rannsakendur telja að eldvarnarhurðir hafi ekki virkað sem skyldi með þeim afleiðingum að reykur barst á allar nítján hæðir hússins.

Svo virðist sem eldur hafi kviknað út frá hitablásara í einni íbúð blokkarinnar. Í frétt AP fréttaveitunnar segir að eldurinn sjálfur hafi aðeins skemmt lítinn hluta byggingarinnar en að reyk hafi borið frá íbúðinni um alla blokkina með skelfilegum afleiðingum.

Upphaflega var talið að nítján hafi látist í eldsvoðanum en staðfest tala látinna er sautján, þar af átta börn. Þá liggja tugir íbúa á sjúkrahúsi, sumir í lífshættu.

Slökkviliðsstjóri New York borgar segir dyr íbúðarinnar þar sem eldurinn kviknaði og dyr á fimmtándu hæð hefðu átt að lokast sjálfkrafa til að hemja útbreiðslu elds og reyks. Hann segir enn óljóst hvort eldvarnarhurðir hafi bilað eða eitthvað hafi verið sett fyrir þær.

Ein biluð eldvarnarhurð geti valdið dauða margra

Glenn Corbett, sérfræðingur í eldvörnum, segir lokaðar dyr nauðsynlegar til að temja eld og reyk, sérstaklega í byggingum sem eru án sjálfvirks slökkvibúnaðar.

„Það er frekar ótrúlegt að bilun einnar hurðar geti leitt til svo margra dauðsfalla, en þannig er það. Þessar einu dyr spiluðu stórt hlutverk í því að eldurinn dreifðist og að reykur og hiti bárust lóðrétt í gegn um bygginguna,“ segir hann.

Slökkviliðsmenn segja þykkan reykjarmökkinn hafa hindrað útgöngu íbúanna. Fórnarlömb hans hafi fundist örend á öllum hæðum hússins.

Stefan Beauvogui, fyrrum íbúi hússins, segir að hitakerfi íbúðablokkarinnar hafi um langa hríð verið bilað. Hann hafi því notað þrjá hitablásara yfir vetrartímann. Hann kveðst hafa kvartað yfir ástandinu en að ekkert hafi verið í því gert.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.