United seinasta liðið í fjórðu umferð eftir nauman sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Manchester United mæti Middlesbrough í fjórðu umferð FA bikarsins eftir sigur kvöldsins.
Manchester United mæti Middlesbrough í fjórðu umferð FA bikarsins eftir sigur kvöldsins. Clive Brunskill/Getty Images

Manchester United vann nauman 1-0 sigur er liðið tók á móti Aston Villa í lokaleik þriðju umferðar FA bikarsins í kvöld.

Scott McTominay kom United yfir strax á áttundu mínútu þegar hann stangaði fyrirgjöf samherja síns í netið eftir að Luke Shaw hafði tekið stutta hornspyrnu.

Gestirnir í Aston Villa virtust líklegri til að skora næsta mark og eftir hálftíma leik setti Ollie Watkins skot innan úr teig í þverslánna.

Staðan var enn 1-0 þegar flautað var til hálfleiks en gestirnir virtust enn líklegri til að koma boltanum í netið eftir hlé.

Það tókst loks eftir um 50 mínútna leik þegar Danny Ings ýtti boltanum yfir línuna af stuttu færi. Fagnaðarlætin lifðu þó ekki lengi þar sem myndbandsdómari leiksins sá eitthvað athugavert við markið.

Fyrst var gengið úr skugga um að Ollie Watkins hafi alveg örugglega ekki snert boltann á leiðinni til Ings sem hefði gert þann síðarnefnda rangstæðan, og þegar það var komið á hreint þurfti að skoða hvort að Jacob Ramsey hafði brotið á Edinson Cavani í aðdragandanum að markinu.

Dómari leiksins fór sjálfur í skjáinn og komst að þeirri niðurstöðu að Ramsey hafi verið brotlegur og markið því dæmt af.

Á 60. mínútu kom Ollie Watkins svo boltanum í netið fyrir gestina eftir stoðsendingu frá Danny Ings, en Ings var réttilega dæmdur rangstæður og því fékk það mark ekki heldur að standa.

Ekki tókst gestunum að skora löglegt mark í kvöld og því varð niðurstaðan 1-0 sigur Manchester United sem er nú á leið í fjórðu umferð þar sem liðið mætir B-deildarliðið Middlesbrough.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.