Innlent

Sóttvarnareglubrjótar og heimilisátök á Suðurlandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það var af nógum verkefnum að taka í umferðinni á Suðurlandi síðustu viku.
Það var af nógum verkefnum að taka í umferðinni á Suðurlandi síðustu viku. Vísir/Vilhelm

Tvö mál komu upp í vikunni í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi þar sem aðilar sem áttu að vera í einangrun vegna Covid-19 eru grunaðir um að hafa virt þá skyldu að vettugi. Málin eru bæði komin á borð ákærusviðs.

Þá eru til rannsóknar tvö mál er varða ágreining milli skyldra eða tengdra aðila. Annað varðar „minniháttar“ líkamsárás milli feðga en bæði mál virðast snerta börn undir lögaldri þar sem unnið er með barnaverndaryfirvöldum.

Í tilkynningu lögreglunnar um verkefni vikunnar segir að tveir einstaklingar hafi verið handteknir á Selfossi um helgina grunaðir um að standa að dreifingu fíkniefna. Leitað var í bifreið þeirra og á heimili annars og fannst nokkuð af fíkniefnum og fjármunum. Annar játaði að um væri að ræða afrakstur fíkniefnasölu.

Tólf umferðarslys voru tilkynnt lögreglu og þrjú slys þar sem fólk féll og slasaðist. Einn ökumaður var kærður fyrir að flytja beltagröfu sem var breiðari en heimilt er í almennri umferð á palli bifreiðar, án þess að hafa aflað sér undanþágu. Annar ökumaður var sektaður um 40 þúsund krónur fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.

Nítján voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Einn sem grunaður var um akstur undir áhrifum reyndi að koma sér undan sök með því að færa sig í aftursæti bifreiðar sinnar en hann játaði þegar runnið var af honum. Annar missti stjórn á bifreið sinni í Hveradalabrekku og lenti utan í vegriði. Þá velti ökumaður bifreið á Suðurlandsvegi skammt frá Landvegamótum en sá er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna eða lyfja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×