Fótbolti

Sendi son sinn inn á völlinn á 87. mínútu og hann skoraði sigurmarkið á þeirri 89.

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Francisco Conceicao fagnar hér sigurmarki sínu en dómarinn er að segja föður hans Sergio að fara aftur á sinn stað.
Francisco Conceicao fagnar hér sigurmarki sínu en dómarinn er að segja föður hans Sergio að fara aftur á sinn stað. EPA-EFE/RODRIGO ANTUNES

Porto vann dramatískan sigur í portúgölsku deildinni um helgina og þetta var sannarlega dagur Conceicao feðgana.

Sergio Conceicao er þjálfari Porto og hefur verið það frá árinu 2017. Hann var áður leikmaður félagsins og þetta er hann uppeldisfélag.

Sergio hætti að spila árið 2010 og er nú orðinn 47 ára gamall. Hann á fimm stráka og sá næstyngsti er hinn nítján ára gamli Francisco.

Francisco hafði spilað 25 deildarleiki fyrir Porto liðið á síðustu tveimur tímabilum en aðeins tvisvar verið í byrjunarliðinu. Hann hafði ekki skorað eitt einasta deildarmark fyrir leik helgarinnar. Strákurinn var aftur á bekknum á laugardaginn þegar Porto mætti Estoril.

Estoril var 2-1 yfir þegar tíu mínútur voru eftir en Luis Diaz jafnaði metin á 84. mínútu. Sergio Conceicao ákvað síðan að setja strákinn sinn inn á völlinn á 87. mínútu.

Aðeins tveimur mínútum síðar var Francisco Conceicao á réttum stað og tryggði Porto 3-2 sigur.

Fagnaðarlæti stráksins voru alvöru en ekki minnkaði fjörið þegar hann leitaði uppi föður sinn. Feðgarnir voru gríðarlega sáttir með markið eins og sjá má í þessu myndbandi hér fyrir ofan.

Það vakti samt athygli að Sergio sló strákinn sinn nokkrum sinnum í andlitið í fagnaðarlátunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×