Enski boltinn

„Vorum ekki nógu góðir og verðum að biðjast afsökunar á því“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikel Arteta hefur beðið stuðningsmenn Arsenal afsökunar á frammistöðu liðsins gegn Nottingham Forest í kvöld.
Mikel Arteta hefur beðið stuðningsmenn Arsenal afsökunar á frammistöðu liðsins gegn Nottingham Forest í kvöld. Michael Regan/Getty Images

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, baðst afsökunar á frammistöðu sinna mann er liðið féll úr leik í FA bikarnum gegn B-deildarliði Nottingham Forest í kvöld.

Þetta var í annað skipti á fjórum árum sem Nottingham Forest slær Arsenal úr leik í þriðju umferð FA bikarsins, en Arsenal er sigursælasta lið keppninnar frá upphafi.

„Við vorum ekki nógu góðir og verðum að biðjast afsökunar á því,“ sagði Arteta eftir tapið í kvöld.

„Við þurftum meiri vilja, meira hungur til að vinna sama hvað það kostar, miklu meira. Við spiluðum undir getu.“

„Í fyrsta lagi er ég virkilega vonsvikinn með frammistöðuna. Ég er ekki vonsvikinn með hugarfarið heldur hversu mikla ákveðni við sýndum til að reyna að breyta leiknum þegar það er erfitt að spila á móti liði sem spilar eins og þeir spila.“

„Ég hef sjálfur spilað svona leiki á seinustu 18 árum og ég veit hversu flókið það er að mæta hingað. Það kemur mér ekkert á óvart að við höfum mætt mótstöðu. En þegar það gerist þá þurfum við að tækla það öðruvísi.“

„Þetta er virkilega sárt. Þetta er keppni sem tengist sögu okkar mjög mikið og það er virkilega slæmt að vera sleginn út,“ sagði Arteta að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.