Innlent

Starfs­­menn ráðu­neytisins ekki með 0,5 prómill í blóðinu alla daga

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Fjalar segir starfsmenn ráðuneytisins hafa orðið mjög hissa þegar þeir sáu að dómsmálaráðuneytið hefði keypt áfengi fyrir 28 milljónir í fyrra. Hið rétta er að sú upphæð eigi við kaup allra undirstofnana ráðuneytisins á áfengi og tóbaki. 
Fjalar segir starfsmenn ráðuneytisins hafa orðið mjög hissa þegar þeir sáu að dómsmálaráðuneytið hefði keypt áfengi fyrir 28 milljónir í fyrra. Hið rétta er að sú upphæð eigi við kaup allra undirstofnana ráðuneytisins á áfengi og tóbaki.  vísir/sigurjón

Kaup Fangelsismálastofnunar á tóbaki sem selt er áfram til fanga skýrir þá háu upphæð sem greint var frá í gær að hefði farið frá dómsmálaráðuneytinu í kaup á áfengi og tóbak á síðasta ári. Tæpar 25 milljónir fóru í kaup á tóbaki fyrir fangelsin en tóbaksnotkun fanga fer minnkandi milli ára. Dómsmálaráðuneytið sjálft keypti áfengi fyrir 163 þúsund krónur á síðasta ári.

Eins og greint var frá í Kvöld­fréttum Stöðvar 2 í gær er erfitt að greina ná­kvæmar upp­hæðir ríkis­stofnana á á­fengis­kaupum þar sem þau eru oftar en ekki falin inni í reikningum sem hluti af heildar­kostnaði eftir ráð­stefnur, boð og fleira.

Þegar frétta­stofa sendi fyrir­spurn á Ríkis­kaup um á­fengis­kaup ráðu­neyta kom fram í því svari að ráðu­neytin bókuðu kaup sín á vörum eftir mis­munandi bók­halds­lyklum. Einn þeirra kallast á­fengi og tóbak.

Að­eins tvö ráðu­neyti höfðu bókað kaup undir þeim lykli í fyrra; dóms­mála­ráðu­neytið og mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið. Í svarinu kom fram að dóms­mála­ráðu­neytið hefði keypt vörur undir þeim vöru­flokki fyrir 28 milljónir en mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið fyrir 7 milljónir. Kaup undir­stofnana þessara ráðu­neyta eru inni í þessum tölum.

Ekki í Druk-til­r­aun

Kaup Fangelsis­mála­stofnunar á tóbaki sem er selt í verslunum fangelsanna skýrir þarna háa tölu dóms­mála­ráðu­neytisins en tæpar 25 milljónir fóru í tóbaks­kaup fangelsanna í fyrra

„Starfs­menn dóms­mála­ráðu­neytisins urðu mjög hissa þegar þeir sáu þessa tölu, að við værum að kaupa á­fengi fyrir 28 milljónir á einu ári. Þetta eru rúm­lega 100 þúsund krónur á hvern virkan vinnu­dag sem að væru svona sirka tíu vodka­flöskur held ég miðað við laus­lega verð­könnun í ríkinu,“ segir Fjalar Sigurðar­son upp­lýsinga­full­trúi dóms­mála­ráðu­neytisins.

Það sé að sjálf­sögðu ekki staðan.

„Við erum ekki að gera ein­hverja Thomas Vin­ter­berg til­raun að vera með 0,5 prómill í blóðinu alla daga. Þannig að 28 milljónir voru alveg út úr kortinu,“ segir Fjalar og vísar þar til kvik­myndar Vin­ter­bergs sem kom út í fyrra með Mads Mikkel­sen í aðal­hlut­verki. Hún segir frá til­raun nokkurra vina til að halda sér hæfi­lega fullum alla daga.

„Þannig að 28 milljónirnar voru ekki á­fengis­kaup fyrir dóms­mála­ráðu­neytið heldur sígarettur á Litla Hrauni, að mestu leytinu til,“ segir Fjalar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×