Fótbolti

Ekki búið að ráða nýjan aðstoðarþjálfara en Davíð Snorri og Ólafur Ingi hjálpa til í Tyrklandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson verður væntanlega kominn með nýjan aðstoðarmann áður en mánuðurinn er á enda.
Arnar Þór Viðarsson verður væntanlega kominn með nýjan aðstoðarmann áður en mánuðurinn er á enda. vísir/Hulda Margrét

Nýr aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta verður ráðinn seinna í þessum mánuði, eftir vináttulandsleikina í næstu viku.

KSÍ og landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson hafa verið í leit að nýjum aðstoðarþjálfara landsliðsins eftir að Eiður Smári Guðjohnsen hætti. Ekki er enn búið að ráða aðstoðarþjálfara og það kemur í hlut Davíðs Snorra Jónassonar og Ólafs Inga Skúlasonar að aðstoða Arnar Þór í leikjum Íslands í næstu viku. Íslenska liðið mætir Úganda og Suður-Kóreu í Tyrklandi 12. og 15. janúar. Hópurinn er skipaður leikmönnum sem spila á Norðurlöndunum.

„Það verður ekki klárt. Við tókum fljótlega ákvörðun að flýta okkur hægt og vanda til verka. Við ákváðum líka þá að taka Davíð Snorra og Óla Skúla með sem aðstoðarþjálfara í þessa ferð,“ sagði Arnar Þór í samtali við Vísi í dag. Davíð Snorri er þjálfari U-21 árs landsliðsins og Ólafur Ingi þjálfar U-19 ára landsliðið.

„Þetta er hluti af því að stilla saman strengi milli liða og vinna saman. Það eru margir ungir og efnilegir leikmenn í þessum hópi sem hafa verið hjá Davíð Snorra. Það er gott fyrir hann þar sem U-21 árs liðið fékk ekki leiki í janúar.“

Innan við fimm sem koma til greina

Arnar Þór á von á því að gengið verði frá ráðningu á nýjum aðstoðarþjálfara skömmu eftir leikina í Tyrklandi.

„Undanfarnir dagar hafa farið í að velja hópinn og fá svör frá félögunum. Þessir leikir fyrir utan hefðbundna landsleikjadagskrá FIFA þannig að við þurftum að fá vilyrði frá félögunum. Það hefur gengið vel en tekið tíma. En ég býst við að við höldum þjálfaraleitinni áfram eftir verkefnið og klárum þetta sem fyrst,“ sagði Arnar Þór. Hann segist vera búinn að þrengja hringinn og nú standi aðeins örfáir kandítatar eftir.

„Í desember tók ég stóra hópinn, mengið, og gerði upp við mig á hverju við þyrftum á að halda. Ég þrengdi hópinn og það eru innan við fimm aðilar þar eftir. Það er ekki mikil vinna eftir.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.