Fótbolti

Trippi­er fyrstu kaup nýrra eig­enda New­cast­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kieran Trippier á að baki 35 A-landsleiki fyrir England.
Kieran Trippier á að baki 35 A-landsleiki fyrir England. Shaun Botterill/Getty Images

Hægri bakvörðurinn Kieran Trippier verður fyrstu kaup nýrra eigenda Newcastle United, ríkasta íþróttafélags í heimi.

Frá því að nýir eigendur Newcastle keyptu félagið hefur félagaskiptagluggans í janúar verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Félagið á fleiri hundruð milljónir punda til að eyða í leikmenn og staða þess í deildinni er það slæm að Newcastle verður að reyna bæta leikmannahóp sinn.

Nú hefur hinn áreiðanlegi Keith Downie staðfest að enski landsliðsmaðurinn Trippier hafi ákveðið að segja skilið við Spánarmeistara Atlético Madríd til að ganga í raðir Newcastle.

Samkvæmt Downie mun Newcastle borgar 12 milljónir punda fyrir leikmanninn en verðið gæti þó hækkað uppfylli hann ákveðin skilyrði. Það er þó ekki talið að það muni hækka mikið og því verður að segjast að um kjarakaup er að ræða en reiknað var með að nýríkt lið Newcastle þyrfti að kaupa leikmenn dýrum dómum.

Ekki er ljóst hversu langan samning hinn 31 árs gamli Trippier skrifar undir en hann mun gangast undir læknisskoðun á morgun, miðvikudag.

Trippier var í lykilhlutverki er Atlético varð Spánarmeistari á síðustu leiktíð en hefur áður spilað með Tottenham Hotspur og Burnley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×