Fótbolti

Segir að Christian Eriksen fari að æfa með liði í þessum mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen í leiknum fræga á móti Finnlandi á EM síðasta sumar.
Christian Eriksen í leiknum fræga á móti Finnlandi á EM síðasta sumar. Getty/Lars Ronbog

Umboðsmaður danska knattspyrnumannsins Christian Eriksen hefur mjög góðar fréttir að færa að skjólstæðingi sínum en allt hefur gengið mjög vel hjá kappanum í endurhæfingu hans að undanförnu.

Eriksen hefur ekkert spilað síðan hann hjartað hans hætti að slá í miðjum leik Dana á Evrópumótinu í sumar en sem betur fer tókst að lífga hann við á grasinu og koma honum síðan í öruggar hendur á sjúkrahúsi.

Eriksen fékk gangráð græddan í sig í framhaldinu en það varð til þess að hann mátti ekki spila áfram með Internazionale á Ítalíu. Leikmenn mega ekki spila í Seríu A með slíkt.

Samningi hans og ítalska stórliðsins var því rift í desember og síðan hefur danski landsliðsmiðjumaðurinn verið án félags.

Eriksen sjálfur er ekki búinn að gefa upp vonina að spila alvöru fótbolta á ný. Hann æfði einn hjá OB í Danmörku en núna vonast hann til að finna sér nýtt félag í janúarglugganum.

„Það gengur allt mjög vel hjá Christian. Hann fór í gegnum öll próf rétt fyrir jólin og niðurstöður þeirra rannsókna voru það góðar að við búumst við því að hann taki þátt í æfingum hjá liði seinna í janúarmánuði,“ sagði Martin Schoots, umboðsmaður Christian Eriksen, við Daily Mail.

Umboðsmaðurinn vildi samt ekki gefa neitt meira upp um næstu skref leikmannsins.

„Ég kýs það frekar að Christian sjálfur segi frás því og hann mun líka gera það fljótlega,“ sagði Schoots. Það er samt þegar farið að orða hann við lið í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×