Fótbolti

Argentínskur plötu­snúður fékk morð­hótanir en neitar að hafa smitað Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi er enn staddur í Argentínu og má ekki fara á meðan hann er með veiruna.
Lionel Messi er enn staddur í Argentínu og má ekki fara á meðan hann er með veiruna. EPA-EFE/Ian Langsdon

Lionel Messi er með kórónuveiruna en hann náði sér í hana í jólafríi sínu í Argentínu. Það er óhætt að segja að Argentínumenn hafi leitað uppi sökudólg eftir að fréttir bárust af smiti gulldrengsins.

Paris Saint-Germain staðfesti um helgina að Messi væri einn af fjórum leikmönnum félagsins sem væri smitaður. Messi eyddi jólunum í borginni Rosario í Argentínu þaðan sem hann er ættaður. Hann fór þar meðal annars í nokkrar veislur og partý.

Einn af þessum fögnuðum var sá sem argentínski plötusnúðurinn DJ Fer Palacio var að spila fyrir dansi. Hinn 31 árs gamli Fer Palacio hafði verið í fjölmörgum partýjum daginn áður þar sem kom seinna í ljós að fólk hafði smitast af kórónuveirunni.

Plötusnúðurinn hefur nú komið fram og sagt frá því að hann hafi fengið morðhótanir og móðganir á samfélagsmiðlum frá fólki sem kenna honum um það að Messi fékk veiruna.

„Ég er að trenda á Twitter af því að Messi greindist smitaður af COVID-19. Þau halda því fram að ég hafi smitað hann. Þau hafa meira að segja kallað mig morðingja. Ég hef fengið fullt af ógeðslegum einkaskilboðum,“ sagði Fer Palacio.

„Ég fór í próf í gær af því að ég þurfti að ferðast til Úrúgvæ og þar kom í ljós að ég er ekki með kórónuveiruna,“ sagði Palacio. Hann er því saklaus af öllum þessum ásökunum.

Fer Palacio setti mynd af sér og Messi saman á samfélagsmiðla sína í síðustu viku og skrifaði þar að hann hafi fengið þann besta til að dansa auk þess að hann þakkaði Messi fjölskyldunni fyrir boðið.

Messi er í einangrun í Rosario og mun því ekki koma aftur til Frakklands fyrr en hann mælist ekki lengur með veiruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×