Innlent

Ættum að draga okkur inn í skel til að halda at­vinnu­lífinu gangandi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Víðir Reynisson er áhyggjufullur yfir stöðunni.
Víðir Reynisson er áhyggjufullur yfir stöðunni. Vísir/Arnar

Allar hug­myndir um að veita at­vinnu­rek­endum vald til að kalla fólk í sótt­kví í vinnu hafa verið slegnar út af borðinu. Al­manna­varnir reyna nú að finna nýjar lausnir til að geta haldið at­vinnu­lífinu á floti næstu vikur á meðan met­fjöldi Ís­lendinga er í ein­angrun og sótt­kví.

Al­manna­varnir kynntu hug­myndir sínar um nýtt fyrir­komu­lag á vinnu­sótt­kví á gaml­árs­dag sem fól í sér að at­vinnu­rek­endur gætu sjálfir á­kveðið hvort launa­fólk í sótt­kví ætti að sækja vinnu í svo­kallaðri vinnu­sótt­kví.

Þetta var þó dregið til baka eftir há­vær mót­mæli verka­lýðs­hreyfingarinnar.

„Nei, ég lít svo á að þessar hug­myndir sem voru kynntar okkur á morgni gaml­árs­dags séu al­gjör­lega út af borðinu og það eru ekki við­ræður um að endur­vekja þær,“ segir Drífa Snæ­dal, for­seti Al­þýðu­sam­bandsins.

Því verður fyrir­komu­lag vinnu­sótt­kvíar ó­breytt; það er að segja að at­vinnu­rek­endur með mikil­væga starf­semi sækja um það hjá al­manna­vörnum að starfs­menn þeirra fái að fara í vinnu­sótt­kví.

Hingað til hefur að­eins mjög mikil­væg starf­semi fengið slíka undan­þágu frá venju­legri sótt­kví en til skoðunar er að leyfa fleiri fyrir­tækjum að fara þessa leið.

„Þetta snýst um það hvaða fyrir­tæki það eru sem að upp­fylla þau skil­yrði núna fyrir að fá vinnu­sótt­kvína, hvort að þau séu eitt­hvað að breytast eða ekki. Þetta hefur verið mjög þröngt túlkað hingað til,“ segir Víðir Reynis­son hjá al­manna­vörnum.

Janúar verður mjög erfiður

Mannekla hjá almannavörnum er slík að þeim hefur gengið illa að sinna öllum beiðnum atvinnurekenda um að fá að kalla inn starfsfólk í vinnusóttkví. Það var ein helsta ástæða þess að fyrri leið um að færa þetta vald í hendur atvinnurekenda átti að vera farin. 

Nú er verið að reyna að fá inn fólk til almannavarna til að sinna þessum beiðnum og er vonast til að það verði hægt að leysa vandann hratt á næstu dögum.  

Hann hefur miklar áhyggjur af atvinnulífinu og samfélaginu öllu næstu vikurnar sem gæti verið í þann mund að staðna.

Eins og er eru 14 þúsund manns í sóttkví eða einangrun.

„Þetta mun hafa gríðarlega mikil áhrif og ég held að það sé alveg ljóst að janúar verður bara mjög erfiður í samfélaginu bara vegna fjölda smita. Það er alveg ljóst. Það eina sem við getum öll reynt að gera er að draga okkur inn í skel og hafa samskipti við sem fæst, það minnkar líkurnar á að við smitumst.

 Og að menn einbeiti sér bara að því að gera það sem er algjörlega nauðsynlegt og annað ekki. Ég held að það sé bara staðan sem við erum í,“ segir Víðir og bendir á lönd í kring um okkur sem eru komin nokkrum vikum á undan okkur í ferlinu. Þar sé staðan orðin gríðarlega alvarleg vegna fjölda fólks í einangrun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.