„Sjálf lenti ég í einangrun, fékk Covid fyrir jól og þá svona finnur maður á eigin skinni hversu ótrúlega góð maskína þetta er. Sjálfvirknin er orðin mjög mikil í Covid-göngudeildinni. Þetta er ekki eins og þetta var í fyrstu þegar það var hringt í alla því nú er þetta orðin sjálfvirkni og þú merkir þig og þitt heilsufar og hvort þú þurfir símhringingu eða ekki,“ segir Guðlaug í Bítinu á Bylgjunni.
Guðlaug bendir á að um sjö þúsund manns séu skráðir í Covid-göngudeild, en allir þeir sem greinast fara sjálfkrafa á lista á deildinni. „Veiran er alveg á fullri ferð í samfélaginu og starfsmenn Landspítalans fara ekkert varhluta af því.“
Aðspurð vill hún ekki meina að spítalinn hafi verið illa rekinn. „Ég myndi segja að spítalinn hafi að mörgu leyti verið vel rekinn, en það þarf meira fjármagn, það er alveg ljóst. Við höfum rætt það í mjög langan tíma. Kannski má breyta ýmsu innanhúss, fara öðruvísi með og forgangsraða öðruvísi. Það er ekki hafið yfir gagnrýni,“ segir Guðlaug. Spítalinn þurfi 1,7 milljarða til að halda óbreyttum rekstri.
„Þá erum við ekki að tala um neinar sérstakar framfarir, en óbreyttan rekstur og ekki að tala um miklar breytingar í þjónustunni.“
Hlusta má á viðtalið við Guðlaugu Rakel í spilaranum hér fyrir neðan.