Erlent

Í­huga að breyta reglum um ein­angrun nokkrum dögum eftir styttingu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna.
Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Sóttvarnayfirvöld í Bandaríkjunum íhuga nú að breyta reglum um einangrun Covid-smitaðra, með því að setja neikvætt kórónuveirupróf sem skilyrði fyrir því að hægt sé að ljúka einangrun á fimm dögum. Einangrun í Bandaríkjunum var stytt úr tíu dögum í fimm í síðustu viku.

Í sjónvarpsþættinum This Week á sjónvarpsstöðinni ABC sagði Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, að þetta væri nú til skoðunar. Hann sagði sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, meðvitaða um þá gagnrýni sem stytting einangrunar hefði fengið.

„Þegar þetta er skoðað betur þá gæti það verið möguleiki að hafa próf inni í þessu. Ég held að við heyrum meira um þetta frá CDC á næstu dögum,“ sagði Fauci, og sagðist sjálfur telja að um gáfulega ráðstöfun væri að ræða.

Einangrun hér á landi var stytt úr tíu dögum í sjö nú fyrir áramót, eftir að bandarísk yfirvöld tóku ákvörðun um að stytta einangrun vestan hafs. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, sagði í samtali við fréttastofu í gær að ekki væri til skoðunar að svo stöddu að stytta einangrun meira. Það kynni þó að breytast ef nýjar upplýsingar bentu til þess að frekari stytting væri réttlætanleg.

Þrátt fyrir að stytting einangrunar í Bandaríkjunum hafi reynst umdeild hefur Fauci varið ákvörðunina.

„Á seinni hluta þessa tíu daga tímabils, sem alla jafna hefði verið tíu daga einangrun, eru líkurnar á smiti talsvert lægri. Þess vegna ákvað CDC að lítil áhætta væri fólgin í því að hleypa fólki fyrr úr einangrun,“ sagði Fauci í sjónvarpsþættinum State of the Union á CNN.

Dr. Rochelle Walensky, sem fer fyrir CDC, hefur sagt að stofnunin hafi ekki viljað mæla með því að neikvætt próf væri skilyrði fyrir styttingu einangrunar, þar sem ekki lægi fyrir hvort antigen-hraðpróf gæfu vísbendingar um hversu smitandi Covid-sjúklingar eru, á meðan PCR-geta komið jákvæð út í marga mánuði eftir smit.


Tengdar fréttir

Ekki til skoðunar að stytta ein­angrun meira í bili

Íslensk sóttvarnayfirvöld ráðgera að svo stöddu ekki að stytta einangrunartíma Covid-smitaðra meira en gert var skömmu fyrir áramót. Þá var einangrunartími styttur úr tíu dögum í sjö. Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar kallaði eftir enn styttri einangrunartíma á dögunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×