Innlent

Steig í ó­gáti á bremsu svo flug­vélin hafnaði á hvolfi við Blöndu­ós­flug­völl

Atli Ísleifsson skrifar
Grassvæðið sem mennirnir notuðu til lendinganna er um 250 metra langt og hafði flugmaðurinn notað um 100 metra til lendingar þegar flugvélin steyptist á hvolf.
Grassvæðið sem mennirnir notuðu til lendinganna er um 250 metra langt og hafði flugmaðurinn notað um 100 metra til lendingar þegar flugvélin steyptist á hvolf. RNSA

Flugmaður í aftursæti heimasmíðaðrar flugvélar steig í ógáti og of harkalega á bremsu sem varð til þess að vélin steyptist yfir sig og hafnaði á hvolfi við æfingar á grasi utan flugbrautar á Blönduósflugvelli 4. maí síðastliðinn.

Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa en skýrsla nefndarinnar um slysið var birt í gær. Tveir menn voru í vélinni og sluppu þeir báðir ómeiddir og komust sjálfir út vélinni.

Flugvélin er stélhjólsvél af gerðinni Piper PA-12 Replica, og flokkuð heimasmíði. Er vélin smíðuð þannig að mögulegt sé að stjórna henni úr fram- og aftursæti. „Fótstig fyrir hemla úr aftursæti er fyrir aftan fótstig fyrir hliðarstýri þannig að auðvelt er að stíga á bæði fótstigin samtímis, sé ekki höfð á því sérstök aðgát,“ segir í skýslunni.

Í skýrslunni segir að hliðarvindur hafi verið á flugvellinum þennan dag og flugmaðurinn ákveðið að lenda á grassvæði við hliðina á flugbrautinni, en vélin er á stórum dekkjum sem ætluð eru til slíkra lendinga.

„Flugmaðurinn og farþeginn lentu nokkrum sinnum og skiptust á að vera við stjórn flugvélarinnar. […] Flugmaðurinn var vanur að fljúga flugvélinni úr framsæti en var að þessu sinni í aftursæti hennar.

Örin sýnir stefnu lendingarinnar.RNSA

Í lokalendingunni, eftir um það bil 100 metra lendingabrun, var flugmaðurinn að beita hliðarstýrum en steig í ógáti og einnig fremur fast á hemlana um leið og hann var að stíga á fótstig fyrir hliðarstýri með þeim afleiðingum að flugvélin steyptist yfir sig og hafnaði á hvolfi.“

Hafi samræmi í afstöðu milli fótstiga og hemla

Er það niðurstaða rannsóknar nefndarinnar að hemlar úr aftursæti séu þannig staðsettir að auðvelt sé að stíga á þá í ógáti þegar verið sé að beita hliðarstýri. „Við rannsóknina kom fram að hemlum hafði verið beitt í ógáti úr aftursæti, og of harkalega, með þeim afleiðingum að flugvélin hafnaði á hvolfi.“

Beinir rannsóknarnefnd samgönguslysa því til flugvélasmiða í heimasmíði að hafa samræmi í afstöðu milli fótstiga og hemla í fram- og aftursæti ef kostur er.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.