Blaðamaður náði tali af Rakel þegar hún hafði nýlokið sínum síðasta vinnudegi á Ríkisútvarpinu. Hún segir að erfitt hafi verið að kveðja fréttastofuna eftir 22 ár á sama vinnustað og hrósaði samstarfsfélögum sínum í hástert. Vinnufélagarnir söfnuðust saman í dag og komu henni á óvart þegar hún hafði lokið sinni síðustu beinu útsendingu.
„Ég hef nú verið að grínast með það síðustu daga að þetta er eins og að vera stödd í eigin erfidrykkju, af því ég á náttúrulega marga góða félaga hér sem ég á eftir að sakna og maður er bara pínu meyr af því þetta er svo gott og skemmtilegt fólk sem ég er að vinna með. Og það er erfitt að kveðja það þó að maður vilji söðla um og prófa eitthvað nýtt,“ segir Rakel.
„Þetta hljómar örugglega allt mjög klisjukennt“
Rakel hyggst byrja nýtt ár á tveggja mánaða uppsöfnuðu leyfi en að hennar sögn hefur aldrei gefist færi á að nýta það. Ekki er ljóst hver næstu skref verði að öðru leyti en hún segir hlæjandi í samtali við blaðamann að líklega standi til ætla uppfæra ferilskrána.
„Sumum finnst þetta vera svolítið kalt, að ætla að vaða svona út í óvissuna, en ég er bara furðu brött og glöð með þetta allt saman. Ég bara hlakka til nýrra ævintýra. Þetta hljómar örugglega allt mjög klisjukennt en ég er bara á þessum góða stað,“ segir Rakel glöð í bragði.