Enski boltinn

United hefur ekki tapað seinasta leik ársins í tíu ár í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
David de Gea lék í 3-2 tapinu gegn Blackburn á gamlársdag fyrir tíu árum, en hann stóð einnig vaktina í rammanum í gær.
David de Gea lék í 3-2 tapinu gegn Blackburn á gamlársdag fyrir tíu árum, en hann stóð einnig vaktina í rammanum í gær. Catherine Ivill/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Manchester United vann öruggan 3-1 sigur gegn Burnley í gærkvöldi í lokaleik liðsins á árinu 2021. Liðið hefur því ekki tapað lokaleik sínum á árinu í tíu ár.

Scott McTominay kom United yfir strax á áttundu mínútu með hnitmiðuðu skoti áður en Ben Mee tvöfaldaði forystu gestanna þegar hann varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Cristiano Ronaldo kom United í 3-0 á 35. mínútu, en Aaron Lennon minnkaði muninn fyrir gestina þremur mínútum síðar og þar við sat.

Manchester United hefur því ekki tapað í lokaleik ársins seinustu tíu ár, eða síðan liðið tapaði 3-2 á heimavelli gegn Blackburn á gamlársdag árið 2011. Síðan þá hefur liðið unnið sjö og gert þrjú jafntefli.

Þá var það Yakubu sem kom gestunum yfir úr vítasspyrnu á 16. mínútu, en hann tvöfaldaði forskot Blackburn svo á 51. mínútu.

Tíu mínútum síðar var staðan þó orðin jöfn eftir tvö mörk frá Dimitar Berbatov, en það var svo Grant Hanley sem tryggði Blackburn 3-2 sigur þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Einn leikmaður United lék bæði í gærkvöldi og í tapleiknum fyrir tíu árum, en það var markvörðurinn David de Gea.

Það var tölfræðisíðan OptaJoe sem birti þessar upplýsingar fyrir leik gærkvöldsins, en hana má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Ótrúlegur sigur Blackburn á Old Trafford

Sir Alex Ferguson fékk heldur lélega afmælisgjöf á sjötugsafmæli sínu þar sem hans menn í Manchester United töpuðu fyrir botnliði Blackburn, 3-2, á heimavelli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×