Erlent

James Webb tekur á sig mynd en ekkert má bregða útaf

Samúel Karl Ólason skrifar
Brjóta þurfti sjónaukann saman til að koma honum af yfirborði jarðarinnar.
Brjóta þurfti sjónaukann saman til að koma honum af yfirborði jarðarinnar. NASA

Byrjað er að opna geimsjónaukann James Webb sem skotið var út í geim á jóladag. Sjónaukinn er svo stór að brjóta þurfti hann saman til að koma honum af yfirborði jarðar og má ekkert fara úrskeiðis á meðan verið er að opna hann.

Næstu tvær vikur verður eitt skref tekið að öðru í því að opna JWST. Að því loknu á sjónaukinn að vera klár til að beina skynjurum sínum út í alheiminn.

Á morgun stendur til að byrja að opna sólarskjöld sjónaukans. Hans er þörf vegna þess að sjónaukinn þarf að vera gífurlega kaldur til að virka rétt. Vonast er til þess að opnun skjaldarins ljúki um helgina.

Hætta er á því að ef eitthvað eitt klikki í öllu opnunarferlinu verði sjónaukinn ónothæfur. Í rauninni þarf bara ein löm að klikka. Það er því mikið undir í hverju skrefi.

Bili eitthvað verður mjög svo erfitt að laga sjónaukann þar sem hann verður í um 1,5 milljóna kílómetra fjarlægð frá jörðu þegar hann verður kominn á sinn stað.

Áhugasamir geta fylgst með ferðalagi sjónaukans hér á vef NASA. Hægt er að fara yfir þá hluti sem þurfa að ganga upp hér.

Tíu milljarðar og miklar tafir

Sjónaukinn er samstarfsverkefni NASA, evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) og kanadísku geimstofnunarinnar. Upprunalega stóð til að sjónaukinn myndi kosta einn til 3,5 milljarða dala og átti að skjóta honum á loft árið 2010. Honum var skotið á loft jóladag og kostaði í heild um tíu milljarða dala.

Geimskotið heppnaðist vel og í kjölfarið voru sólarrafhlöður sjónaukans opnaðar með góðum árangri. Í nótt var fyrsta stefnubreytingin af tveimur framkvæmd en markmiðið er að koma JWST á stað sem nefnist Lagrange-punktur 2.

Lagt var upp með það að JWST yrði starfræktur í minnst fimm ár og var vonast eftir tíu árum. NASA segir nú að vegna þess hve vel geimskotið heppnaðist og hve vel hefur gengið að breyta stefnu sjónaukans, sé útlit fyrir að nægt eldsneyti sé um borð til að nota sjónaukann til rannsóknarstarfa töluvert lengur en í tíu ár.

Það er þó ekki öruggt samkvæmt uppfærslu frá NASA og veltur á ýmsu öðru.


Tengdar fréttir

Bein útsending: Áratuga ferli að ljúka á mikilvægu geimskoti

James Webb-geimsjónaukanum var loks skotið á loft í dag eftir margra ára þróun og smíði og fjölmargar tafir. Sjónaukinn er sá háþróaðasti sem hefur nokkru sinni verið framleiddur og er meðal annars ætlað að varpa ljósi á uppruna alheimsins.

Eðlilegt að fólk sé stressað fyrir geimskot James Webb

James Webb geimsjónaukanum verður skotið á loft á aðfangadag, gangi áætlanir geimvísindamanna eftir. Gífurlega mikið er í húfi en fjölmargt þarf að ganga eftir svo sjónaukinn geti bylt geimvísindum eins og vonast er til.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.