Fótbolti

Völdu hvorki Heimi né Milos

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Milos Milojevic halda áfram leit að álitlegu þjálfarastarfi.
Heimir Hallgrímsson og Milos Milojevic halda áfram leit að álitlegu þjálfarastarfi. GETTY/DAVID RAMOS/EPA/STINA STJERNKVIST

Eins og fram kom á Vísi í morgun stóð val sænska knattspyrnufélagsins Mjällby á milli þriggja þjálfara, þar af tveggja íslenskra, en nú er orðið ljóst að hvorugur þeirra tekur við liðinu.

Hið sænska Aftonbladet greindi frá því í hádeginu að forráðamenn Mjällby hefðu gert upp hug sinn og ákveðið að ráða Andreas Brännström sem nýjan þjálfara.

Brännström var þriðji maðurinn, auk Heimis og Milos, sem íþróttastjóri Mjällby hafði sagt að valið stæði á milli.

Brännström, sem er 45 ára gamall Svíi, starfaði síðast sem aðstoðarþjálfari hjá Hajduk Split í Króatíu en var látinn fara í nóvember líkt og aðalþjálfarinn Jens Gustafsson. Áður hafði hann meðal annars verið þjálfari Jönköping og Dalkurd í Svíþjóð.

Heimir hefur verið án starfs síðan hann hætti hjá Al Arabi í Katar fyrr á þessu ári. Hann stýrði liðinu í þrjú ár.

Milos var síðast þjálfari Hammarby en var rekinn þaðan eftir að hann ræddi við Rosenborg í leyfisleysi. Síðan þá hefur Milos meðal annars verið orðaður við serbneska stórliðið Rauðu stjörnuna.

Mjällby endaði í 9. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Að því loknu hætti Anders Torstensen sem þjálfari liðsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.