Íslenski boltinn

Fann­dís með slitið kross­band: „Fót­bolta­hjartað er í þúsund molum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir hefur bæði orðið Íslandsmeistari með Val og Breiðabliki.
Fanndís Friðriksdóttir hefur bæði orðið Íslandsmeistari með Val og Breiðabliki. vísir/Hulda Margrét

Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Vals, er með slitið krossband í hné og verður þar af leiðandi frá keppni næstu mánuðina.

Fanndís sneri aftur í lið Vals um mitt síðasta sumar eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn í byrjun febrúar. Hún lék fimmtán leiki í deild og bikar á síðasta tímabili og skorað sex mörk.

Fanndís leikur þó væntanlega ekkert með Val á næsta tímabili en í dag greindi hún frá því að hún væri með slitið krossband í hné. „Fótbolta hjartað er í í 1000 molum. krossbandið slitið, langt og strangt ferli framundan. Knús og kossar,“ skrifaði Fanndís á Instagram.

Einnig er ljóst að Fanndís spilar ekki með íslenska landsliðinu á EM á Englandi næsta sumar. Hún hefur leikið 109 landsleiki og skorað sautján mörk og landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson ýjaði að því að Fanndís gæti átt afturkvæmt í landsliðið.

Fanndís, sem er 31 árs, lék með Íslandi á EM 2009, 2013 og 2017. Hún skoraði eina mark íslenska liðsins á Evrópumótinu í Hollandi fyrir fjórum árum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.