Fótbolti

Sturridge þarf að greiða manninum sem fann hundinn hans fjórar milljónir í ógreidd fundarlaun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daniel Sturridge og Lucci.
Daniel Sturridge og Lucci. instagram-síðan The Original Lucky Lucci

Daniel Sturridge hefur verið gert að greiða manni sem fann hund hans tæpar fjórar milljónir króna í ógreidd fundarlaun.

Fyrir tveimur árum var brotist inn á heimili Sturridges í Los Angeles og Pomeranian-hundi hans að nafni Lucci stolið. Sturridge greindi frá þessu á samfélagsmiðlum og sagðist vera tilbúinn að borga hvað sem er til að fá hundinn aftur.

Maður að nafni Foster Washington, þrítugur öryggisvörður og þriggja barna faðir, fann hvuttann og skilaði honum aftur til Sturridges. Hann fékk hins vegar aldrei fundarlaunin og kærði Sturridge í mars á þessu ári. 

Í síðustu viku komst dómstóll í Los Angeles svo að þeirri niðurstöðu að Sturridge þyrfti að greiða Washington þrjátíu þúsund Bandaríkjadali í ógreidd fundarlaun. Það nemur tæpum fjórum milljónum íslenskra króna.

Sturridge hefur aðra sögu að segja en Washington en að hans sögn fann ungur drengur Lucci, skilaði honum til eiganda síns og fékk fundarlaun fyrir. Í færslu á Twitter í fyrradag sagðist Sturridge eiga myndir, myndbönd og hljóðupptökur af því þegar drengurinn skilaði Lucci.

Sturridge, sem er 32 ára, leikur núna með Perth Glory í Ástralíu. Hann er alinn upp hjá Manchester City en er sennilega þekktastur fyrir tíma sinn hjá Liverpool. Sturridge á 26 leiki og átta mörk með enska landsliðinu á ferilskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×