Innlent

Jarð­skjálfti af stærðinni 4,7 mældist á Reykja­nes­skaga

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Flogið yfir eldstöðvarnar í Fagradalsfjalli
Flogið yfir eldstöðvarnar í Fagradalsfjalli Foto: RAX/RAX

Snarpur skjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu klukkan 15.03 í dag og samkvæmt mælingum Veðurstofunnar var hann 4,7 að stærð. Skjálftinn er sá stærsti frá upphafi nýlegrar jarðskjálftahrinu í Fagradagsfalli en hún hófst á þriðjudaginn síðastliðinn. 

Skjálftinn mældist á 3,4 kílómetra dýpi suðsuðaustur af Fagradalsfjalli, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Eftirskjálfti fylgdi í kjölfarið, eða um mínútu síðar, sem mældist 4,0 að stærð samkvæmt vef Veðurstofunnar. Hann mældist á rétt rúmlega eins kílómetra dýpi suðaustur af Fagradalsfjalli. Um tvö þúsund skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga síðan á miðnætti.

Bjarki Kaldalóns Friis, vakthafandi náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að skjálftahrinan virðist vera söm við sig.

„Þetta byrjaði að taka sig upp aftur upp úr hádegi og svo bættist meira í við hádegi. Svo kom þessi stóri 4,7 og eftirskjálfti upp á 4,0 núna upp úr klukkan þrjú. Skjálftavirkni liggur enn við Stóra-Hrút við Fagradalsfjall og hún virðist ekki vera að færast út fyrir sprungusvæðið í Geldingadölum. Mesta skjálftavirknin er nálægt stóra gígnum,“ segir Bjarki en bætir við að engin merki séu um gosóróa séu sem komið er.

Mikil skjálftavirkni í nótt

Skjálftahrina hefur staðið yfir á suðvesturhorni landsins síðan á þriðjudaginn síðastliðinn.  Vakthafandi náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands sagði í samtali við fréttamann morgun að aðdragandi svipaði mjög til eldgossins í Fagradalsfjalli en óvíst er hvort kvika nái að brjóta sér leið upp á yfirborðið.

Skömmu eftir miðnætti í nótt mældist skjálfti 3,1 að stærð en um tveimur tímum síðar mældist annar skjálfti sem var 3,4 að stærð.  Þúsund jarðskjálftar höfðu mælst frá miðnætti þegar fréttamaður ræddi við vakthafandi náttúruvársérfræðing klukkan sjö í morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×