Sveindís gekk til liðs við þýska stórliðið Wolfsburg í upphafi árs, en var svo lánuð til Svíþjóðar þar sem hún lék með Kristianstad á nýliðnu tímabili. Þar átti hún stóran þátt í góðu gengi liðsins sem tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Þá lék hún einnig frábærlega með íslenska landsliðinu og var einn af lykilmönnum liðsins á árinu.
Sveindís var kjörin knattspyrnukona ársins hjá KSÍ, en Sveindís segir það gríðarlegan heiður.
„Þetta er bara ótrúlega mikill heiður myndi ég segja. Það eru frábærar knattspyrnukonur hérna á Íslandi og ég er bara mjög ánægð með að fá þessa nafnbót.“
Sveindís hefur feril sinn með Wolfsburg eftir áramót, en þýska liðið er eitt af bestu liðum Evrópu. Þrátt fyrir að kveðja Kristianstad með söknuði segist hún vera komin í alvöruna þar sem að landsliðskonur skipa hverja einustu stöður Wolfsburg.
„Þetta eru bara meiri gæði og betri leikmenn og frábærir þjálfarar. Það er líka bara mjög gott teymi í kringum liðið. Tveir markmannsþjálfarar og held ég fimm þjálfarar að þjálfa Wolfsburg. Þannig að þetta er smá munur og allt bara aðeins stærra kannski,“ sagði Sveindís að lokum.
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.