Fótbolti

Sverrir lauk erfiðu ári á góðum nótum

Sindri Sverrisson skrifar
Sverrir Ingi Ingason og félagar í PAOK fagna marki í sigrinum í dag.
Sverrir Ingi Ingason og félagar í PAOK fagna marki í sigrinum í dag. paokfc.gr

Sverrir Ingi Ingason var í liði PAOK sem sló út Larissa í grísku bikarkeppninni í fótbolta í dag með 3-1 sigri.

Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leik sínum og PAOK vann einvígið þar með 4-2 og er komið áfram í 8-liða úrslitin.

Staðan í leiknum í dag var 1-1 þegar tíu mínútur voru eftir en Chuba Akpom skoraði tvö mörk á lokakaflanum og tryggði PAOK sigurinn.

Sverrir lék allan leikinn og hefur spilað þrjá síðustu deildarleiki PAOK, þar af einn í byrjunarliði, sem allir hafa unnist.

Sverrir varð að fara í aðgerð vegna meiðsla í vor, í lok síðasta tímabils, og þessi 28 ára gamli miðvörður hefur því verið að spila sína fyrstu leiki á þessu tímabili nú í desember. Vegna meiðslanna missti hann af öllum landsleikjum Íslands nú í haust en lék síðast með landsliðinu í mars, í undankeppni HM.

Nú tekur við stutt jólafrí hjá Sverri og liði PAOK sem spilar næst gegn Panaitolikos 5. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×