Innlent

Með húmorinn að vopni við mót­mæli gegn bólu­setningum barna

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hvenær er faraldur faraldur, Haraldur? Þegar stórt er spurt er fátt um svör.
Hvenær er faraldur faraldur, Haraldur? Þegar stórt er spurt er fátt um svör. vísir

And­stæðingar bólu­setninga og að­gerða stjórn­valda gegn heims­far­aldrinum virðast hafa þróað með sér ör­lítinn húmor og smekk fyrir orða­leikjum. Á annað hundrað manns tóku þátt í mót­mælum gegn bólu­setningum barna í dag og voru slag­orð mót­mælenda mörg í frum­legri kantinum.

Mót­mælin fóru ef­laust ekki fram hjá neinum sem átti leið um mið­bæinn á milli klukkan 16 og 17 í dag en ó­venju­margir sóttu mót­mælin í saman­burði við fyrri mót­mæli þeirra sem efast um gildi bólu­setninga.

Eins og fjallað var um í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í gær þá aug­lýsti hópurinn mót­mælin undir heitinu Friðar­ganga, hernaðar­and­stæðingum til lítillar á­nægju en þeir hafa haldið ár­lega friðar­göngu á Þor­láks­messu frá árinu 1980. Sér­stak­lega sveið þessi nafna­stuldur vegna þess að hernaðar­and­stæðingar hafa af­lýst göngu sinni í ár af til­liti til sótt­varna­tak­markana.

Í sam­tali við frétta­stofu í gær þver­tóku skipu­leggj­endur mót­mælanna fyrir að nafnið væri fengið frá friðar­göngu hernaðar­and­stæðinga. En sama hvort mót­mælendur hafi haft hina fjöru­tíu ára gömlu jóla­hefð hernaðar­and­stæðinga í huga við nafn­giftina eða ekki verður ó­um­deilt að titillinn er góður á mót­mæli.

Á annað hundrað manns tóku þátt í mótmælunum í dag.

Og slag­orð mót­mælanda sem sjá mátti á skiltum þeirra voru einnig mörg nokkuð frum­leg og jafn­vel fyndin, sama hvað hverjum kann að finnast um boð­skapinn sjálfan.

Þar mátti sjá bregða fyrir hinu klassíska stíl­bragði, rími, hjá einum sem gekk framar­lega í hópnum niður Lauga­veginn: „Hve­nær verður far­aldur far­aldur, Haraldur?“ og má þar ætla að spurningunni sé beint að fyrrverandi sóttvarnalækni Haraldi Briem.

Og annar virtist ó­sáttur með gjöfina sem hann hafði fengið í skóinn hjá Hurða­skelli í nótt, kannski skiljan­lega en á hans skilti stóð:

„Hvað fékkstu í skóinn? Ég fékk 2ja metra mál­band“.


Tengdar fréttir

Óbólusett börn geta veikst mikið af nýjum veiruafbrigðum

Prófessor í barnalækningum og smitsjúkdómum segir það samfélagslega ábyrgð fullorðinna að láta bólusetja börnin sín, sem geti veikst alvarlega af nýju afbrigðum veirunnar. Ljósið í myrkrinu, að börnin mundu öll sleppa vel, er slokknað. Faraldurinn er á hraðri uppleið enn á ný og það eru óbólusett börn sem halda honum uppi, segir sóttvarnalæknir.  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×