Enski boltinn

Fleiri og fleiri félög vilja fresta öllum leikjum í enska fram á nýtt ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og félagar í Manchester United spiluðu ekki í vikunni og spila heldur ekki um helgina.
Cristiano Ronaldo og félagar í Manchester United spiluðu ekki í vikunni og spila heldur ekki um helgina. Getty/Daniel Chesterton

Engir leikir í ensku úrvalsdeildinni þar til að árið 2022 gengur í garð? Svo gæti farið haldi smitunum áfram að fjölga í herbíðum félaganna tuttugu.

Það er óhætt að segja að það sé mikil óvissa um leikjadagskrá ensku úrvalsdeildarinnar yfir hátíðirnar eftir mikla fjölgun kórónuveirusmita í herbúðum félaganna.

Þegar er búið að fresta níu leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu dögum þar af helmingi leikjanna í umferð helgarinnar.

Nýjustu fréttir frá Englandi eru síðan þær að fleiri og fleiri félög vilji fresta öllum leikjum fram á nýtt ár eða á meðan félögin eru að ná stjórn á þessum hópsmitum. ESPN fjallar meðal annars um málið.

Jólahátíðin er að vanda þéttskipuð af leikjum í ensku úrvalsdeildinni og ef að öllum leikjunum yrði frestað þá þýddi það að heilar fjórar umferðir myndu færast fram á tímabilið.

Samkvæmt þessum nýjum tillögum þá þyrfti að fresta öll leikjum fram að helginni 8. til 9. janúar en þá eru öll liðin að spila í ensku bikarkeppninni.

Eina sem hefur komið frá ensku úrvalsdeildinni er að stefnan sé að þeir leikir geti farið fram þar sem hægt er að tryggja heilsu þátttakenda en að engin áhætta verði tekin með heilsu leikmanna og annarra.

Mörg félög eru í miklum vandræðum vegna smita og allt útlit er fyrir að þeim eigi bara eftir að fjölga. Lið hafa verið að spila án lykilmanna eins og Liverpool í gær en leikjum Tottenham og Manchester United hefur þegar verið frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×